Slærðu raunverulega lengra með nýjum járnum?

Eftir nóvember 29, 2017Greinar

Það er algengt að heyra í í kylfingum sem eru í skýjunum með nýju járnin sín. Ekki vegna þess að þeir spila betur með þeim, heldur vegna þess að þeir slá svo langt með þeim. Þeir slá allt að heilli kylfu lengra en með gamla settinu sínu og halda að það galdri fram betra skor. Spurningin er: Af hverju slá kylfingar oft lengra með nýjum járnum og þarf það að vera gott?

„Hverfandi fláa veikin“

Síðustu 20-30 árin hefur fláinn á járnum minnkað og sköftin hafa orðið lengri. Fyrir fáum árum var 2-járn 20°, 5-járn 32° og 9-járn 48°. Í dag er algengt að það sé ekkert 2-járn, 3-járnið er 19°-20°, 5-járnið 26° og 9-járnið 42° eða jafnvel minna. Sumir framleiðendur hafa gengið svo langt að hafa 4-járn 19° og PW 43°, sem hefði verið 2-járn og 8-járn fyrir um 30 árum. Framleiðendur hafa líka lengt sköftin á járnum sínum samhliða því að minnka fláann. Sem sagt, það sem var 8-járn fyrir nokkrum árum er 9-járn í dag. Sama kylfan, sami flái og lengd, en í stað þess að það standi 8 á botni kylfunnar þá stendur talan 9. Sem sagt, það sem var 8-járn fyrir nokkrum árum er 9-járn í dag.

Meiri högglengd selur

Þegar kylfingar prófa nýtt járnasett, þá er „demo“ kylfan oftast 6-járn. Ef högglengdin er meiri en með gamla 6-járninu eru miklar líkur á að kylfingar vilji kaupa allt settið. Eftir að eitt fyrirtæki byrjaði að minnka fláann til að plata kylfing til að halda að hann slái lengra, þá hafa öll önnur fylgt á eftir til að tapa ekki sölu af því högg með þeirra 6-járni fer „styttra“. En auðvitað slær kylfingurinn ekkert lengra, hann slær einfaldlega með annarri kylfu. Hann gæti gert það sama með því að líma „8“ undir gamla 7-járnið sitt. Egóið er bætt en skorið ekki. Það er hægt að auka högglengd með því að hækka endurkastsstuðul („COR“) með þunnum höggfleti, sem sumir framleiðendur eru farnir að gera. Það er dýrara en að einfaldlega minnka fláann og markaðsetja þá brellu vel. Aukin högglengd með miðlungs og stuttum járnum er ekki vegna þess að það er búið að breyta massamiðju eða út af nýjum sköftum. Hún er fyrst og fremst vegna þess að fláinn er minni.

Hverjir eru ókostirnir við þessa þróun?

Óstöðugt bil í lengd milli kylfa. Í járnasettum í dag er bilið í fláa á milli löngu járnanna mikið minna en á milli stuttu járnanna. Það er vegna þess að það er ekki hægt að minnka fláann jafn mikið á löngu járnunum eins og þeim stuttu, því þá myndi enginn ná höggum með löngu járnunum á loft. Sem sagt, bilið á milli 3-járns og PW er orðið miklu minna. Framleiðendur vilja augljóslega ekki selja færri kylfur og ekki láta kylfinga slá „styttra“ með demo kylfunum. Eina leiðin er því að hafa minna bil í fláa á milli löngu járnanna en mun meira á milli stuttu járnanna. Áður fyrr var stöðugt 4° bil milli allra járna. Í dag eru gjarnan 3° eða jafnvel 2° á milli löngu járnanna og svo 5° til 6° á milli stuttu járnanna. Vegna þess hve erfitt er að slá með löngum járnum og ná boltanum á loft ætti í raun að vera 5° á milli þeirra fyrir flesta kylfinga. Augljóslega verður þetta til þess að það verða óstöðug bil á milli kylfa. Bilið er orðið svo mikið á milli PW og SW út af þessari sölumennsku að það var fundin upp ný kylfa sem kallast milli-wedge eða gap-wedge. Framleiðendur gátu ekki minnkað fláann á sand-wedginum, því þá myndi enginn ná boltanum upp úr glompu. Bilið á milli PW og SW er því orðið um 10° eða jafnvel 13° hjá sumum framleiðendum sem eru farnir að hafa PW 43°.

Fáir geta slegið með löngum járnum

Í golfi er oft talað um „24/38 regluna”. Þessi regla er einfaldlega að þegar golfkylfa er með 24° fláa eða minna og er orðin 38“ löng eða meira, þá eiga flestir meðalkylfingar orðið mjög erfitt með að slá með þeim kylfum. Það þarf mjög nákvæma og góða tækni til þess að vera stöðugur með slíkum kylfum og það eru fáir sem ná því. Fyrir ekki svo mörgum árum féll 3-járnið þeim megin við 24/38 regluna að margir kylfingar gátu slegið með því. En vegna þess hvernig fyrirtæki hafa breytt kylfum sínum fellur í besta falli 5-járn réttum megin við regluna og fáir geta slegið með 3- og 4-járni. Út af þessu hefur í dag 2-járn næstum horfið. Það þyrfti það að vera um 16°-17° þegar 3-járnið er orðið 20°. Prófaðu næst að kíkja ofan í nokkra golfpoka úti á velli og taktu eftir að löngu járnin eru oft eins og ný því þau eru svo lítið notuð. Framleiðendur gera nú hálfvita/blendinga, sem er léttara að slá með en löngum járnum fyrir flesta. En þeir eru gjarnan allt of langir líka.

Kostnaður

Síðast en ekki síst þá er stór galli við þetta kostnaður. Kylfingar eru oft ómeðvitaðir um þessar breytingar á fláa, enda hvergi tekið fram í auglýsingum hvernig er búið að breyta honum. Þeir halda að þeir séu að slá lengra út af nýrri tækni og vonast eftir að bæta skorið með nýjum kylfum, en þeir gætu vitaskuld eins hafa valið járni lengra úr gamla settinu og sparað sér skildinginn.

Ekki falla fyrir brellunni

Þegar þú skoðar nýjar kylfur, athugaðu vel og vandlega fláann og lengdina á þeim. Vertu viss um hvað þú ert með í höndunum og hvað þú ert að bera saman. Best er ef þú ferð í mælingu eða kemst í góðan höggnema og berð saman flugtakshorn og lendingarhorn. Hversu mikið er aukin högglengd út af minni fláa og lægra boltaflugi eða út af öðrum þáttum eins og þynnri betur hönnuðum höggfleti? Ekki giska á það sem er hægt að mæla! Ekki heldur gera ráð fyrir að þótt þú sláir vel með 6-járni, þá eigir þú eftir að gera það með lengri járnunum í settinu líka. Varastu að pæla í hvaða járni meðspilarar slá með, nema þú vitir fláann á þeim. Mundu að það er enginn staðall á fláa á járnum og hann er mjög misjafn á milli ólíkra járna. Ef þú ætlar að eyða peningum til þess einungis að bæta egóið, þá væri betra að fara til íþróttasálfræðings en að kaupa nýtt járnasett.