Er driverinn þinn of langur?

Eftir október 7, 2011Greinar

Afhverju hafa driverar lengst?

Frá því um 1980 hafa driverar smám saman lengst og þeir búnir að lengjast um 3“ í heildina. Í dag eru flestir driverar sem seldur eru út í búð handa körlum um 45,5“ til 46,5“, en áður fyrr voru þeir um 43,5“. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Ekki hefur fólk stækkað svona mikið síðustu 30 árin og ekki hefur fólk heldur orðið mikið betra í golfi. Ástæðurnar eru sennilega nokkrar. Á síðustu 30 árunum hafa golfyrirtæki þrefaldast, þannig að samkeppnin er gríðarleg, og lengd er það sem selur mest. Þessi fyrirtæki halda að kylfingar slái lengra með lengri sköftum og gjarnan halda kylfingar það líka. Það er líka mjög algengt í dag að kylfingar séu „fittaðir“ innandyra í „launch monitor“. Þar pæla kylfingarnir gjarnan of lítið í hversu skakkt þeir slá í netið og þegar þeir slá lélegt högg þá er ekkert að marka það. Það sem er rýnt í er eina góða höggið af tuttugu og að það gæti hugsanlega verið nokkrum metrum lengra en með styttri driver. Á golfvellinum er svo ennþá erfiðara að endurtaka þetta töfrahögg sem slegið var innandyra. Þar er kylfingurinn ekki búinn að vera að slá bolta eftir bolta með driverinum í nákvæmlega eins aðstæðum, heldur tekur hann í driverinn á korters fresti við mismunandi aðstæður. Þetta eina draumahögg verður þá svo sjaldgæft að það sést aldrei á golfvellinum. Hversu oft hefur maður séð kylfing nota brautartré eða blending á teig af því að hann getur einfaldlega ekki slegið vel með drivernum?

Því lengri sem kylfan er, því erfiðara er að stjórna henni og því erfiðara er að slá beint og því erfiðara er að slá stöðugt á miðjuna á höggfletinum.

Hér má læra af bestu kylfingum heimsins. Tiger Woods var lengi með 43,5“ driver þegar hann var upp á sitt besta. Bubba Watson er með 44,5“ og Sergio Garcia 43,75“. Meðallengd á driverum á PGA tour er 44,5“ og hefur verið það frá því 2005. Þar ertu með bestu golfara jarðar, með frábærar sveiflur, en samt nota þeir drivera um 2“ styttri en driver sem seldur er út í búð handa miðlungs kylfing. Afhverju eru bestu kylfingar heims ekki með lengri drivera? Golf er þeirra lifibrauð og þeir eru búnir að prófa mismunandi löng sköft. Það er augljós yfirhönd í golfi að slá langt. Það þarf ekki að rýna lengi í tölfræðina eða peningalistann til að sjá það. Þessir kylfingar vilja slá eins langt og þeir geta, en þeir einfaldlega ráða ekki við lengri kylfu! T.d. sagði Bubba Watson í viðtali fyrir stuttu að lykillinn að lengd væri styttra skaft í driver.

Svo gott sem allir kylfingar slá sjaldnar á sæta blettin með lengri kylfu. Þeir einu sem ráða sæmilega við lengri kylfu og sjá smávægilega aukinn kylfuhraða eru þeir sem hafa gott vald á kylfunni, nota úlnliðina seint í niðursveiflunni(mikið „lag“), eru með mjúkt tempo og fara ekki „over the top“(út-inn feril). Ef að þetta á ALLT við þig, þá gætir þú prófað að vera með driver í lengri kantinum til að ná í nokkra auka metra. Ef að einungis eitt af þessu á ekki við þig, sem eru flestir kylfingar, þ.e. þú sveiflar hratt, notar úlnliðinn snemma, ferð „over the top“, slæsar, eða ert óstöðug(ur) með driver, þá ætti rétta lengdin fyrir þig á driver að vera frá 43,5“-44,5“ fyrir karla og um 42“-43“ fyrir konur. Ef þú ert ekki enn sannfærð(ur) um að spila með styttri driver, þá ættu niðurstöður nokkura rannsókna vonandi að hjálpa. Í einni sem gerð var á stórum hópi af kylfingum með mismunandi getu þá juku einungis 10% af þeim kylfuhraðann þegar þeir fóru úr 42“ driver í 48“. Fæstir af þeim bættu við boltahraða því þeir hittu ekki jafn oft á miðjuna á höggfletinum. Ef að þú slærð 1.5cm frá “sæta blettinum”, þá missirðu um 5% af lengdinni. Ef þér skeikar um 2.5cm, þá missirðu um 10%. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá aðra rannsókn gerða af Tom Wishon á 50 kylfingum af mismunandi getu.

Að lokum bendi ég á að ekki rjúka beint út í bílskúr að stytta driverinn þinn. Það þarf að þyngja hausinn rétt til að viðhalda sömu tilfinningu(swingvigt eða MOI) þegar hann er styttur. Láttu lærðan kylfusmið um verkið.