Oft er talað um MOI í golfkylfuheiminum og það er gjarnan vinsælt orð í auglýsingum fyrir drivera, járn og jafnvel púttera. Vandamálið er að fáir kylfingar vita hvað MOI er og er jafnvel nokk sama, en skilningur á því getur hjápað þér að velja golkylfur sem henta þér.
MOI stendur fyrir „Moment of inertia“ eða hverfitregða á íslensku. Hverfitregða er mæling á tregðu hlutar í hringhreyfingu, þ.e. hversu erfitt er að koma hlut á hreyfingu um ákveðin snúningsás. Því hærri sem hverfitregða hluts er, því erfiðara er að koma honum á snúningshreyfingu og því lægri sem hverfitregðan er því auðveldara er það. Í golfi er oftast verið að tala um mótstöðu kylfuhaussins við snúning þegar boltinn er sleginn á tána eða hælinn. Það getur verið erfitt að skilja þessa eðlisfræði, þannig við skilum taka nokkur dæmi um hverfitregðu sem ættu að útskýra hana betur.
Gott dæmi um hverfitregðu er þegar keppandi á listskautum snýr sér í hringi. Þegar hann byrjar að snúa sér í hringi eru hendurnar útréttar og langt frá líkamanum og þannig er hverfitregðan há og því snýst hann hægt. Þegar hann setur hendurnar nær líkamanum eykst hraðinn því að hverfitregðan er minni.
Annað dæmi eru lóðin á myndinni hér til hliðar. Þau eru jafn þung en með mjög mismunandi hverfitregðu. Ímyndaðu þér að þú haldir um lóðin í miðjunni og reynir að snúa þeim. Lóðinu með þyngdinni á endunum væri mun erfiðara að snúa vegna hærri hverftregðu. Efra lóðinu mætti líkja við pútter með þyngdinni í hælnum og tánni en neðra lóðið við gamaldags „blade“ pútter með þyngdinni meira í miðjunni
Þegar er talað um hverfitregðu í golfkylfu er yfirleitt verið að tala um um tregðu kylfuhaussins til að snúast lárétt um massamiðju sína. Semsagt hversu mikið snýst hann þegar þú slærð högg á annan stað en miðjan höggflötinn. Þetta er einn af þeim þáttum sem ákvarða hversu mikið kylfuhaus „fyrirgefur“ og þetta er hverfitregðan sem hefur verið takmörkuð af reglum golfsins. Því stærri sem hausinn á kylfunni er og því meira sem þyngdin er sett í jaðarinn á kylfuhausnum, því hærri verður þessi hverfitregða. Þetta gerir það að verkum að hausinn snýst minna ef högg eru ekki slegin á miðju höggflatarins. Ef þú slærð drive, pútt eða járnahögg ekki á miðjan höggflötinn þá mun kylfuhausinn snúast. Ef þú hittir höggið á tána, þá snýst hausinn um massamiðju sína og opnast og ef þú hittir höggið á hælinn þá snýst hausinn um massamiðju sína og lokast. Því minni orka sem tapast við að snúa hausnum, því lengra og beinna verður höggið.
Við getum tekið tvo kylfuhausa sem dæmi um mismunandi hverfitregðu. Annar væri „blade“ járnahaus þar sem þar sem mikill hluti af massa kylfunnar er beint í miðjunni. Önnur tegund af haus eru meira fyrirgefandi járn þar sem þyngdinni er dreift í hælinn og tána og haft holrými í miðjunni. Það er mjög mikill munur á hverfitregðunni á þessum kylfum. „Blade“ kylfan hefur mun minni hverfitregðu, sem gerir það að verkum að kylfuhausinn snýst meira ef högg er slegið á tána eða hælinn. Högg sem væri ekki slegið á miðjuna yrði lengra, beinna og með betri tilfinningu í kylfuhausnum með hærri hverfitregðu. Annað gott dæmi væri gamaldags lítill driver haus úr tré væri með lága hverfitregðu, en stór titanium driverhaus með meginmassann í jaðrinum væri með miklu meiri hverfitregð.
Hverfitregða skiptir líka miklu máli í pútterum. Það þarf mikla nákvæmni í stefnu og lengd til að pútta vel. Því lengra sem púttið er og því lakari sem kylfingurinn er, því meiri líkur að púttið komi ekki af miðjum höggfletinum. Bestu kylfingar heims hitta flest pútt mjög nálægt miðjunni á höggfletinum og græða því ekki eins mikið á að nota púttera með mikilli hverfitregðu og aðrir. Hinsvegar þegar kylfingar er með ekki nema 1 í forgjöf að þá getur munað um tæpum centimeter hvar þeir hitta púttin á höggflötinn í 6m pútti. Kylfingar með 18 í forgjöf hitta pútt af 6m fjarlægð að meðaltali á 4cm svæði á kylfufletinum. Kylfingar með hærri forgjöf eru með enn lakari árangur. Því hægari sem grínin eru og því lengri sem púttin eru, því sjaldnar hitta kylfingar púttin á miðjuna.
Rannsóknir sem hafa verið gerðar með pútt róbota sýna að ef pútt er 4,5m langt, þá fer það framhjá ef púttið er hitt meira en 0.6cm frá miðjunni með pútter sem hefur lága hverfitregðu. Ef það er hinsvegar pútter með mjög háa hverfitregðu að þá má hitta púttið á 5cm svæði á höggfletinum og það dettur samt. Það getur því verið mikið hjálp í því fyrir marga kylfinga að velja meira „fyrirgefandi“ pútter. Pútterar sem hafa hærri hverfitregðu eru yfirleitt með þyngdina í hælnum og tánni eða mjög aftarlega frá höggfletinum, eru stærri og oft gerðir úr fleiri en einni málmtegund. Þetta er þó ekki algilt, það eru til stórir pútterar úr mörgum málmum með furðulegt útlit sem hafa lága hverfitregðu. Það er því nauðsynlegt að fá góða ráðgjöf áður en pútter eða aðrar kylfur eru keyptar.
Nýlegar athugasemdir