Eru kylfingar að dræva lengra en nokkru sinni?
Nýlega hef ég orðið var við nokkuð af greinum sem fjalla um það að kylfingarnir á PGA mótaröðinni hafi aldrei slegið jafnt langt og þeir gera í dag. Í viðtölum hef ég svo heyrt atvinnumenn sem fá himinhá laun frá kylfufyrirtækjunum segja að þetta sé ótrúlegum framförum í kylfunum og boltunum sem þeir nota að þakka. Í auglýsingum má líka sífellt sjá talað um að kylfingar muni slá lengra með drivernum í ár en úgáfunni í fyrra. Ástæðurnar sem gefnar eru upp eru að driverarnir eru ýmist straumlínulagaðri, það er búið að breyta massamiðjunni fyrir hærra flug og minni spuna, léttari kylfur, byltingar í efnum í kylfuhausunum, sköftunum osfrv. Allt á þetta að verða til þess að að kylfingar slái ennþá lengra en áður. En er þetta rétt? Muntu slá lengra með drivernum í ár heldur með drivernum frá því í fyrra?
Hver er þróunin á PGA mótaröðinni?
Hér fyrir ofan sést súlurit yfir meðalhögglengd á PGA mótaröðinni. Eins og sjá má þá ríkur lengdin upp á þeim tíma sem driver hausarnir voru að stækka og COR-ið(„trampolín áhrifin“) var að aukast. Því hærra sem COR er, því meiri boltahraði næst ef þú hittir boltann á miðjuna og það er því gríðarlega mikilvægt atriði í hönnun á góðum tréhaus. Þeir sem eru með mikinn sveifluhraða bæta sig enn meira í lengd miðað við þá sem eru með hægari sveifluhraða með hækkun á COR. Í lok ársins 2002 setti USGA þak á COR sem var ákveðið að væri .83. Það þýðir að bolta sem er skotið á 100mph hraða á kylfuhaus, má ekki koma til baka á meira en 83mph hraða. Árið 2003 voru flestir framleiðendur búnir að ná þessu hámarki á miðjusvæðinu á höggfletinum og þeir handvelja síðan mælda drivera handa spilurunum sínum á atvinnumannamótaröðunumtil að þeir séu pottþétt á hámarkinu. Á súluritinu sést að högglengdin hefur næstum því staðnað frá því að þessu var náð. Meðallengdin árið 2003 var 286.6yardar, 289.5yardar árið 2008 og núna árið 2011 var hún 290.9yardar. Hank Kuehne á enn metið yfir heilt tímabil, sem var 321.4yard árið 2003. Það þarf svosem ekki að rýna lengi í þetta súlurit til að sjá að það er ekki jafn mikil bylting í högglengd með hverri kynslóð af driverum eins og margir vilja kannski halda fram. Þessar tölur geta reyndar verið svolítið villandi fyrir miðlungskylfinga, þar sem þeir hitta ekki jafn oft á miðjuna og atvinnumennirnir. Það hafa auðvitað orðið framfarir í fyrirgefningu á driverum,sem myndi skila sér í meiri meðallengd hjá flestum kylfingum. En staðreyndin er samt sú ef þú hittir boltann á miðjuna með driver gerður árið 2003 og síðan drivernum sem þú keyptir í dag og allt annað væri eins, þá væri sáralítill munur á lengdinni. Með öllum þeim framförum sem eiga að hafa átt sér stað í kylfum, boltum, sköftum og líkamlegu atgerfi að þá tekst þeim á PGA mótaröðinni ekki að slá nema um 3 metrum lengra í dag en árið 2003 samkvæmt tölfræðinni.
Hvað þýðir þetta?
Það er mitt álit sem kylfusmiður að það er gjarnan óþarfi fyrir kylfinga að vera sífellt að eltast við nýjustu tæknibyltinguna sem auglýst er að útvegi þeim auka 10m. Það er mjög lítið hægt að betrumbæta í driverunum í dag. Hinsvegar hafa kylfingar of oft ekki pælt í grunnatriðum eins og lengd skaftsins, fláa, þyngd og jafnvægi driversins og afstöða höggflatarins(face angle). Það eru þessi atriði sem skipta miklu máli. Ef eitthvað af þessu er ekki pottþétt hjá þér, þá ertu einfaldlega ekki að slá eins langt og þú getur og ekki að spila af hámarks getu. Ef þessi atriði eru hinsvegar rétt í drivernum þínum, þá er sjaldan ástæða að skipta honum út. Peningunum væri oft betur eytt í annað en nýjan driver eins og t.d. kennslu hjá góðum kennara.
Nýlegar athugasemdir