Einn af þeim mörgu þáttum sem e r mikilvægt að henti þér í golfkylfu er legan.Hún er skilgreind sem hornið sem myndast á milli miðju sólans og skaftsins. Ímyndaðu þér að kylfan sitji á miðjum sólanum í uppstillingu og það liggi bein lína aftur frá hæl kylfunnar með jörðinni. Hornið sem þessi lína mynda r við skaftið er legan. Týpísk lega á járnum er frá c.a. 59 gráðum upp í 64 gráður, þar sem stuttu járnin eru uppréttari en löngu járnin flatari.
Legan er rétt fyrir kylfing þegar sólinn á kylfunni er samsíða jörðinni í „impact“ (ath. að hann getur verið allavega í uppstillingu). Legan hefur mikil áhrif á stefnu höggsins og ef hún er ekki rétt fyrir kylfinginn, þá mun honum reynast erfitt að slá beint. Ef legan er of flöt, þá hallar táin á kylfunni niður og höggflöturinn miðar til hægri („slice“ megin) og ef legan er of upprétt þá hallar hællinn niður og höggflöturinn miðar þá til vinstri („húkk“ megin). Þetta sést á myndinni hér að neðan.
Því meiri sem fláinn er á kylfunni því meiri verður skekkjan ef legan er röng. Það er því mjög mikilvægt að legan sé rétt á öllum járnum og sérstaklega á fleygjárnum. Hún skiptir hinsvegar mun minna máli í trékylfum, vegna þess hvað þær hafa lítinn fláa. Önnur ástæða að það er mikilvægt að legan sé rétt er að þegar sólinn er ekki samsíða jörðinni í „impact“ þýðir það að táin eða hællinn hallar upp í loftið og þannig er erfiðara að slá gott högg einfaldlega vegna þess að hluti kylfunnar er staddur of hátt frá jörðu. Það eru því meiri líkur á því að slá t.d. þunnt högg („skalla“) með rangri legu.
Margir kylfingar kaupa járnin og fleygjárnin sín út í búð af rekkanum og hafa ekkert pælt í legunni á þeim. Þar sem engir tveir kylfingar eru eins, er nauðsynlegt að allir séu mældir fyrir legu. Til að finna út hvaða legu þú þarft, þá þarf að mæla hana í slætti. Mæling sem er ekki gerð í slætti, þ.e. hversu há(r) þú ert og með hversu langar hendur, dugar engan veginn til að sjá hvaða lega er rétt fyrir þig. Tveir kylfingar sem eru eins vaxnir geta haft gjörólíka stöðu á kylfunni í „impact“ og þurfa því ólíkar legur. Það eru því miður miklar líkur á að legan henti þér ekki ef þú hefur ekki látið mæla þig og þín járn og lagfæra þau handa þér. Góður kylfusmiður getur mælt þig og fundið hvaða legu þú þarft og ef þess þarf, þá getur hann yfirleitt beygt járnin og fleygjárnin þín í rétta legu handa þér. Oft þurfa hávaxnir kylfingingar uppréttari legu en lágvaxnari kylfingar flatari legu. Ef þú hefur látið mæla þig einu sinni en ætlar að fá þér nýjar kylfur, athugaðu þá að framleiðendur hafa mismunandi „standard“ legu, lengd og þyngd. Það gæti því ekki hentað að halda sig við „standard“ þó þú mældist þannig fyrir eitt sett.
Lega og flái geta bognað með miklum slætti. Þetta gerist sérstaklega hjá þeim sem slá fast og bratt á boltann og enn frekar ef það er af hörðum mottum en ekki af grasi. Kylfur sem eru pressaðar („forged“) úr mjúku stáli bogna MIKLU frekar en kylfur sem eru steyptar („cast“) úr harðara stáli. Ef eitthvað af þessum atriðum á við þig eða þínar kylfur, láttu þá fara yfir fláann og leguna á járnunum og fleygjárnunum þínum reglulega.
Recent Comments