Swingweight eða sveifluþungi er hugtak sem margir kannast við úr golfbransanum. Oft hafa kylfingar heyrt minnst á að kylfa sé t.d. C8, D1 eða D4 í sveifluþunga. Gjarnan hafa betri kylfingar pælt eitthvað í þessum tölum en aðrir kannski ekki jafn mikið. En hvað er sveifluþungi og hvaða máli skiptir hann?
Sveifluþungi er ekki mælikvarði á heildarþyngd sem er gefin upp í grömmum eða kílógrömmum, heldur er sveifluþungi mæling á jafnvæginu fyrir ofan og neðan vogarás sem er 14“ frá gripenda kylfunnar, sem er ca. efsti þriðjungur kylfunnar. Mælingin er svo gefin upp í bókstöfum og tölum, frá A til G og hver bókstafur frá 0 til 9. Því hærri sem bókstafurinn og talan er, því meira er þunginn hausmeginn í golfkylfunni og því þyngri er tilfinningin þegar hennar er sveiflað. Í einföldu máli þá mælir sveifluþungi semsagt hversu þung kylfan virðist vera þegar henni er sveiflað – hversu mikið þunginn er í hausnum.
Tökum smá dæmi. Ef þú tekur 3 járn og setur blýteip á það til að þyngja. Það skiptir engu hvar þú setur þynginguna á kylfuna, hún mun hafa sama heildarþunga. En ímyndaðu þér ef þú sveiflar kylfunni og setur þynginguna fyrst á hausinn, færir hana svo á skaftið og svo í gripið. Tilfinningin fyrir hversu þungt það er að sveifla kylfunni verður mjög ólík og sveifluþungi mælir nákvæmlega þessa tilfinningu. Létt grip eykur sveifluþunga, en létt skaft minnkar hann. Mestu áhrifin eru í hausnum, en smávægilega aukinn þyngd í hausnum eykur sveifluþunga mikið.
Það er nauðsynlegt að mæla sveifluþunga til að allar kylfur pokans hafi sambærilega tilfinningu. Ef að þú ætlar t.d. að skipta út kylfu, að þá er gott að mæla sveifluþungan á nýju kylfunni og sjá hvort hún passi ekki við allar hinar kylfurnar.
Þó að sveifluþungi sé góð mæling, þá er hún ekki fullkomin. Það er hægt að smíða tvær kylfur með ólíkt þungum sköftum,hausum og gripum sem enda með sama sveifluþunga, en tilfinningin verður ekki sú sama. Það er því miður ekki svo einfalt að ef þú átt eina kylfu sem er t.d. D3 í sveifluþunga, að þá mun þér líka vel við allar kylfur í D3. Í dag er einnig hægt að mæla hverfitregðuna(MOI) í allri kylfunni, sem er öllu nákvæmari mæling en sveifluþungi.
Til að kylfingur geti spilað af hámarksgetu, þá þarf sveifluþunginn að passa við hans líkamlega styrk, takt og tilfinningu. Algengt er að líkamlega sterkur kylfingur með hraða sveiflu muni verða mjög viltur og eiga erfitt með að slá góð golfhögg með golfkylfu sem hefur lítinn sveifluþunga. Sambærilega mun kylfingur sem er ekki jafn líkamlega hraustur og með hægari takt ekki ná hámarks kylfuhraða og berjast við þá tilfinningu að erfiða við að sveifla kylfu með of miklum sveifluþunga. Algengt er að karlmenn séu með kylfur frá D0-D4 en konur C4-C8. Sveifluþungi getur haft mikil áhrif á hvernig kylfingur slær og hittir boltann. Algengt er að sjá kylfing missa högg til hægri með of miklum sveifluþunga en til vinstri með of léttum. Þetta er þó mjög eintaklingsbundið, því engir tveir kylfingar eru eins. Það er því algjörlega nauðsynlegt að prófa og finna út í hvaða þyngd kylfingur slær nákvæmast, lengst og best á höggflötinn. Góður kylfusmiður getur hjálpað með allt þetta.
Recent Comments