Stífleiki skafts á golfkylfu hefur áhrif á alla þætti höggsins, þ.á.m. lengd, nákvæmni og ekki síst alla tilfinningu notandans fyrir kylfunni. Kylfingum líður sjaldnast vel með óhentug sköft og ná því mögulega ekki að leika af fullri getu.
Firm, FirmFlex, UniFlex
Eins og flestir kylfingar vita eru sköftin á golfkylfum misjafnlega stíf. Margir hafa vanist því að flokka stífleika þeirra eftir bókstöfum, eins og R, S, L og A og jafnvel orðum eins og Firm, FirmFlex, UniFlex o.s.frv. Þess vegna gæti komið mörgum á óvart að sjá hve mikill munur getur verið á sköftum þótt þau séu merkt með sama bókstaf. Ganga má svo langt að segja að bókstafsflokkun á stífleika skafta hafi enga þýðingu.
Ágiskanir í búðum og hjá kennurum
Val á skafti er mun flóknara en það virðist á yfirborðinu. Það snýst t.d. ekki bara um almennan stífleika, heldur ekki síður um hvernig hann dreifist um skaftið. Þetta, ásamt fleiri þáttum, er að finna í gagnagrunni sem betri kylfusmiðir búa yfir. Í honum er að finna ítarlegar staðreyndir, ekki ágiskanir, um raunverulega hegðun langflestra skafta á markaðnum.
Sveifluhraða kylfingsins
Enn fremur er ekki nóg að bera upplýsingar úr grunninum saman við sveifluhraða kylfingsins. Skoða þarf fleiri þætti, eins og hröðun, takt og líkamlegan styrk. Þetta getur góður kylfusmiður mælt og metið. Hann getur því ekki aðeins bent kylfingnum á hentugasta skaftið, heldur getur hann sýnt það og sannað með vísan í grunninn og mælingarnar. Þess eiga kylfingar að krefjast í kaupum sínum á sköftum og kylfum, en því miður hafa takmarkaðar upplýsingar oftast legið að baki kylfu- og skaftavali kylfinga. Það á ekki síður við þegar kylfur eru keyptar í golfbúðum eða hjá golfkennurum.
Myndin hér að ofan, sem er úr sérstökum gagnagrunni yfir golfsköft, sýnir stífleikagraf tveggja skafta sem bæði eru merkt R. Annað þeirra hentar líklega kylfingi sem sveiflar driver á 55-65 mílna hraða á klukkustund (mph), en hitt skaftið er líklegt til að henta kylfingi sem sveiflar næstum tvöfalt hraðar, eða á 95-105 mílna hraða. Það skýtur því skökku við að þeir noti báðir skaft merkt með sama bókstaf.