Árlega koma flestir stærstu golfkylfuframleiðendur með fjölda af nýjum driverum. Sumir með allt að níu nýjar týpur á einu ári, en einhverjir þó ekki með nýjar týpur nema á nokkurra ára fresti. Með hverri uppfærslu lofa öll þessi fyrirtæki að með nýju kylfunum muni kylfingar slá beinna, stöðugar og aðallega lengra. Langmesta áherslan er lögð á að lofa aukinni högglengd, enda eru allir kylfingar til í að slá lengra.
Yfir hundrað mismunandi stillingar
Ástæðurnar sem gefnar eru upp af hverju kylfingar eiga eftir að slá lengra eru fjölmargar. Kylfuhausarnir eru ýmist straumlínulagaðri, með massamiðjuna(„center og gravity“) á öðrum stað sem á að hækka boltalug og minnka spuna, léttari kylfur, sjáanlegir vasar sem auka fjöðrun, þynnri og „heitari“ höggflötur, betri sköft , ný og betri efni í kylfuhausnum, yfir hundrað mismunandi stillingar, betri orkuflutningur o.s.frv. o.s.frv. Sumir framleiðendur virðast jafnvel farnir í hringi með breytingarnar. Eitt árið gera þeir kassalagaða drivera til að ná þyngdinni aftar og á jaðarinn til að auka hverfitregðu en næst setja þeir þyngdarskrúfur í miðjan kylfuhausinn til að færa massamiðjuna nær höggfletinum til að minnka spuna. Eitt árið stækka þeir kylfuhausana í hámarksstærð en svo koma þeir með minni og svo má áfram telja.
„speed“, „hot“, „energy“, „lower spin“
Þetta er svo allt saman vel markaðsett með grípandi orðum og auglýsingum. Gjarnan má sjá orð eins og „speed“, „hot“, „energy“, „lower spin“ . Bestu kylfingar heims tala svo um hvað þeir slá mikið lengra og beinna með nýjustu græjunum og það eru jafnvel gerð „fyrir og eftir“ auglýsingarmyndbönd sem sýna tölur úr mæligræjum og hvað þeir standa sig mikið betur með nýrri kylfum.
En þá er það spurningin, er þetta satt eða er þetta sölumennska? Eru bestu kylfingar heims að slá lengra með þessum kylfum og munt þú slá lengra með nýjum driver? Kíkjum fyrst aðeins á hvað COR er áður en við svörum þeim spurningum.
Hvað er COR?
COR er skammstöfun fyrir „coefficient of restitution“. Þetta hugtak mætti kalla endurkastsstuðul á íslensku og er oft nefnt fyrir mistúlkun „trampolínáhrif“. Þetta er mælieining á hversu mikil hreyfiorka tapast þegar tveir hlutir rekast saman. Mælingin gæti verið 0.0 ef öll hreyfiorka tapast eða 1.0 ef engin hreyfiorka tapast. Dæmi um 0.0 árekstur væri ef þú hentir tyggjói í vegg, það festist við vegginn og hreyfist ekki, þá hefur öll hreyfiorka tapast. Dæmi um COR sem er nánast 1.0, er þegar þú skýtur kúlu í billiard beint í aðra kúlu af sömu stærð og massa. Þá algjörlega stöðvast kúlan sem þú skaust í með kjuðanum, en hin kúlan fer af stað á næstum sama hraða.
Þegar kylfurhausar fóru að stækka ört frá 1991 fór málmurinn í þeim að verða þynnri og höggflöturinn fór þá að sveigjast við snertingu( „impact“). Því meira sem höggflöturinn sveigist, því minna kremst golfboltinn og þetta leiðir til hærri endurkastsstuðuls. Ástæðan er að það tapast mikið meiri orka þegar golfboltinn kremst heldur en þegar höggflöturinn svignar. Árið 2003 voru sett mörk á hversu hátt COR kylfuhauss má vera og tóku þau líka gildi á PGA mótaröðinni. Mörkin voru sett í .83 COR. Fyrst voru þessi mörk sett á kylfur með undir 15° flága, en seinna voru þau sett á allar golfkylfur. Þetta þýðir að ef golfbolta væri skotið á kyrrstæðan höggflöt á golfkylfu á 100km/klst hraða, þá mætti boltinn ekki koma til baka á meira en 83km/klst hraða.
COR getur skipt miklu máli
Til að átta sig betur á hvað COR getur skipt miklu máli er hér dæmi til að gefa viðmið. Gamlir stál eða tré driverar sem voru ekki sérstaklega hannaðir með þunnan höggflöt eru með COR í mesta lagi .78. Ef kylfingur sem slær rúmlega 200m af teig með nútímadriver með .83 COR myndi nota slíkan driver, þá myndi hann fljúga boltanum rúmlega 10m styttra en hann er vanur. Þeir sem slá lengra væru að tapa enn meiri lengd með gamla drivernum.
Muntu slá lengra með nýjum driver?
Hér fyrir ofan sést súlurit yfir meðalhögglengd með driver á PGA mótaröðinni frá 1993 til lok tímabilsins 2014. Eins og sjá má þá rýkur lengdin upp á þeim tíma sem driverhausarnir voru að stækka og COR var að aukast. Árið 2003 voru flestir framleiðendur búnir að ná COR hámarki á miðjum höggfletinum. Meðallengdin árið 2003 var 262 metrar og núna árið 2014 var hún 264 metrar. Atvinnumennirnir á PGA mótaröðinni hafa bætt sig um 2 metra á síðustu 11 árum. Hank Kuehne á enn metið yfir heilt tímabil, sem var 293,9 metrar árið 2003. Mesta meðallengdin var árið 2011 266 metrar, 2m lengra en í dag árið 2014. Kylfuhraðinn á PGA mótaröðinni mælist 0,6mph hraðari nú í ár en frá því það var hann var fyrst mældur með radar 2007, en það þýðir aukna högglengd upp á 1,5m að öllu öðru jöfnu.
Það þarf ekki að rýna lengi í þetta súlurit til að sjá að það er ekki jafn mikil bylting í högglengd með hverri kynslóð af driverum eins og margir vilja halda fram. Það hefur þó á þessu tímabili orðið framför í fyrirgefningu á driverum,sem myndi skila sér í meiri meðallengd hjá flestum kylfingum og þá helst hjá þeim sem lakari eru. Með reglum um hámark á hverfitregðu(„MOI“) er búið að mestu leyti setja þak á það líka.
Öll mæld meðaltöl hafa vikmörk og það er eðlilegt að sjá meðaltölin fara örlítið upp og niður. Meðallengd teighögga á atvinnumótaröðum er þar engin undantekning. Það er ljóst að driverarnir hættu að mestu ef ekki öllu leiti að lengja atvinnumennina árið 2003. Atvinnumennirnir hafa mun meiri kylfuhraða heldur en flestir kylfingar og myndu þeir sjá talsvert meiri bætingar í högglengd með breyttum spuna eða COR heldur en aðrir kylfingar með minni sveifluhraða. Staðreyndin er augljóslega sú að ef þú hittir boltann á miðjan höggflötinn með driver sem var gerður árið 2003 og driver sem þú keyptir í dag og allt annað væri eins, þá væri sáralítill ef einhver munur á högglengdinni. Tölurnar ljúga ekki og með öllum þeim framförum sem eiga að hafa átt sér stað í kylfuhausum, boltum, sköftum og líkamleguatgervi þá slá kylfingarnir á PGA mótaröðinni ekki nema 2 metrum lengra í dag en árið 2003.
Hvað þýðir þetta?
Það er óþarfi fyrir kylfinga að vera sífellt að eltast við nýjustu „byltinguna“ í driverum, hvort sem hún er auglýst á nokkurra ára fresti eða oft á ári. Loforðin frá markaðsdeildunum eru einfaldlega ekki sannleikanum samkvæm. Það sem er mikilvægast er hvort að kylfan henti þér og þinni sveiflu. Þau atriði sem skipta mestu máli eru t.d. lengd,þyngd og jafnvægi kylfunnar, flái og afstaða höggflatarins(„face angle“), þykkt gripsins, stífleiki og þyngd skaftsins o.s.frv..Ef eitthvað við núverandi driverinn þinn passar ekki fyrir þig og þína sveiflu, þá ertu hvorki að slá eins langt og þú getur né að spila af hámarks getu. Ef þau eru hinsvegar öll rétt, þá er sjaldan ástæða að skipta drivernum út. Til að lækka forgjöfina væri peningunum mikið betur varið í kennslu hjá góðum golfkennara heldur en í árlega áskrift af nýjustu afurð markaðsdeilda golfkylfuframleiðenda.
Nýlegar athugasemdir