Skip to main content
Monthly Archives

February 2019

Gír áhrifin

By Greinar

Gír hrif („gear effect“) er hugtak sem útskýrir af hverju golfhögg fá hliðarspuna þegar þau eru ekki slegin á miðjan högg flöt golfkylfunnar. Ef við gerum ráð fyrir að massamiðja kylfuhauss sé í láréttri miðju hans, þá valda gír áhrifin því að þau högg sem slegin eru hælmegin á höggflötinn eiga það til að fljúga með meiri slæs-spuna til hægri (hjá rétthentum kylfingi) og högg sem slegin eru támegin fljúga á sama hátt með húkk-spuna til vinstri.

Þetta þýðir þó ekki að öll högg sem eru slegin á tána muni taka á sig  húkkspuna eða öfugt. Þeir sem sveifla t.d. mikið út-inn með opinn kylfuhaus þurfa ekki endilega að fá húkk ef þeir hitta á tána, því það nær ekki að yfirvinna slæs-spunann sem þeir mynda með sinni aðferð.

Ef golfhögg er slegið á tá eða hæl höggflötsins, þ.e. ekki í beinni stefnu við massamiðju hans, þá myndast snúningsátak og kylfuhausinn snýst hratt um sína massamiðju. Séu högg slegin á tána, þá snýst kylfuhausinn opinn, og gagnstæður snúningur myndast á golfboltann – húkk spuni til vinstri. Séu högg slegin á hælinn, þá lokast kylfuhausinn um leið og hann loðir við boltann og slæs-spuni myndast. Þetta gerist þar sem boltinn rúllar örlítið í gagnstæða átt við snúningshreyfingu haussins, eins og ef tannhjól væri á höggfletinum og golfboltanum.

Þetta er einnig ástæðan fyrir því að höggflötur á „trékylfum“ er ekki sléttur, heldur en hann kúptur bæði lárétt (rúll/„roll“) og lóðrétt (bunga/„bulge“). Þessi lögun á höggfletinum gerir það að verkum að táin er opnari en miðjan og hællinn lokaðri. Högg sem slegin eru á tána byrja því lengra til hægri til að vega á móti gíráhrifunum sem mynda snúning aftur til baka til vinstri. Hið gagnstæða á við um hælinn. Hann vísar lengra til vinstri til að vega á móti slæs-snúningi til hægri. Þessi áhrif verða líka lóðrétt, þ.e. högg sem eru slegin ofarlega á höggflötinn hafa minni bakspuna en högg sem eru slegin neðarlega.

Því lengra aftur sem massamiðjan er frá höggfletinum, því meiri verða gír áhrifin. Massamiðja í járnhauss er ekki langt aftur frá höggfletinum, en í stórum driver-haus er hún komin nokkuð langt frá höggfletinum, að aftanverðu. Gíráhrifin eru því talsverð í driver og „trékylfum“, en hverfandi í flestum járnakylfum og því er stefna og flái hverrar járnkylfu hinn sami alls staðar á höggfletinum.