All Posts By

Birgir

Gír áhrifin

Eftir | Greinar

Gír hrif („gear effect“) er hugtak sem útskýrir af hverju golfhögg fá hliðarspuna þegar þau eru ekki slegin á miðjan högg flöt golfkylfunnar. Ef við gerum ráð fyrir að massamiðja kylfuhauss sé í láréttri miðju hans, þá valda gír áhrifin því að þau högg sem slegin eru hælmegin á höggflötinn eiga það til að fljúga með meiri slæs-spuna til hægri (hjá rétthentum kylfingi) og högg sem slegin eru támegin fljúga á sama hátt með húkk-spuna til vinstri.

Þetta þýðir þó ekki að öll högg sem eru slegin á tána muni taka á sig  húkkspuna eða öfugt. Þeir sem sveifla t.d. mikið út-inn með opinn kylfuhaus þurfa ekki endilega að fá húkk ef þeir hitta á tána, því það nær ekki að yfirvinna slæs-spunann sem þeir mynda með sinni aðferð.

Ef golfhögg er slegið á tá eða hæl höggflötsins, þ.e. ekki í beinni stefnu við massamiðju hans, þá myndast snúningsátak og kylfuhausinn snýst hratt um sína massamiðju. Séu högg slegin á tána, þá snýst kylfuhausinn opinn, og gagnstæður snúningur myndast á golfboltann – húkk spuni til vinstri. Séu högg slegin á hælinn, þá lokast kylfuhausinn um leið og hann loðir við boltann og slæs-spuni myndast. Þetta gerist þar sem boltinn rúllar örlítið í gagnstæða átt við snúningshreyfingu haussins, eins og ef tannhjól væri á höggfletinum og golfboltanum.

Þetta er einnig ástæðan fyrir því að höggflötur á „trékylfum“ er ekki sléttur, heldur en hann kúptur bæði lárétt (rúll/„roll“) og lóðrétt (bunga/„bulge“). Þessi lögun á höggfletinum gerir það að verkum að táin er opnari en miðjan og hællinn lokaðri. Högg sem slegin eru á tána byrja því lengra til hægri til að vega á móti gíráhrifunum sem mynda snúning aftur til baka til vinstri. Hið gagnstæða á við um hælinn. Hann vísar lengra til vinstri til að vega á móti slæs-snúningi til hægri. Þessi áhrif verða líka lóðrétt, þ.e. högg sem eru slegin ofarlega á höggflötinn hafa minni bakspuna en högg sem eru slegin neðarlega.

Því lengra aftur sem massamiðjan er frá höggfletinum, því meiri verða gír áhrifin. Massamiðja í járnhauss er ekki langt aftur frá höggfletinum, en í stórum driver-haus er hún komin nokkuð langt frá höggfletinum, að aftanverðu. Gíráhrifin eru því talsverð í driver og „trékylfum“, en hverfandi í flestum járnakylfum og því er stefna og flái hverrar járnkylfu hinn sami alls staðar á höggfletinum.

 

Er skaftið vélin í golfkylfunni?

Eftir | Greinar

Margir halda að mikilvægasti hluti golfkylfunnar sé skaftið og virki eins og það sé vélinn í golfkylfunni. Sannleikurinn er að skaftið er í besta falli hægt að kalla kúplinguna í golfkylfunni. Skaftið býr ekki til orku í sveiflunni, heldur tengir það saman hendur kylfingsins við kylfuhausinn og gerir honum þannig kleift að flytja orku í kylfuhausinn og þaðan í golfboltann. Það myndar geymir ekki mikinn fjaðurkraft sem spyrnir í boltann í högginu(„impact“).

Það er alveg satt að ef skaft hentar ekki kylfingi og sveiflunni hans, þá slær hann ekki eins langt og hann getur. Hann mun missa taktinn í sveiflunni, hugsanlega tapa kylfuhraða, hitta höggin verr og fá verra boltaflug.

Skafitð hefur þessi áhrif:

  1. Það getur haft væg áhrif á fláa kylfunnar í höggi. Um 2-3 gráður í driver hjá þeim með mikinn kylfuhraða og þá sem nota únliðabrot seint.
  2. Þyngd kylfunnar. Skaftið er mesta breytan þegar kemur að heildarþyngd golfkylfu. Misþung sköft henta mismunandi kylfingum. Rétt þyngd hjálpar að hitta sem stöðugast á höggflötinn og getur hjálpað sveifluferil líka. Þungi á skafti er því gríðarlega mikilvægur og oft vanmetinn þáttur.
  3. Tilfinninguna. Sumir kylfingar eru mjög næmir á hvernig skaftið bognar og hvar. Þeir kunna best við, og slá því best með, ákveðnum stífleika um endilangt skaftið.

Þetta er í grófum dráttum það sem skaft gerir. Það er varðveitir bognun í niðusveiflunni sem virkar þannig að hún geymir mikla orku sem losnar eins og í veiðistöng og eykur högglengd umtalsvert. Þegar niðursveiflan hjá flestum byrjar, bognar skaftið örlítið á þann hátt að það er í sömu átt og að táin á kylfunni væri að færast upp í uppstillingu. Miðsóknarkraftur gerir það svo að verkjum að skaftið fer að bogna fram í niðursveiflunni. Skaftið hjá sumum kylfingum er svo orðið aftur beint í höggstað, en gjarnan örlítið bogið fram.

Þetta er nokkur einföldun á því hvað skaftið gerir. Það er mikilvægt að allir þættir skaftsins henta kylfing ef hann vill spila af hámarksgetu. En staðreyndin er sú að það bognar ekki aftur og fram eins og veiðistöng og eykur þannig stórlega högglengd. Það er mýta.

Er eitthvað bogið við skaftið?

Eftir | Greinar

“Rolling shutter effect”
Nú til dags er algeng sjón að sjá kylfinga skoða sveifluna sína á myndbandi. Oftast er þá notast við snjallsíma eða spjaldtölvu til upptöku. Mörgum hrekkur við þegar þeir skoða myndbandið og sjá að skaftið virðist bogna mikið í sveiflunni. Algengt er að það myndi mikla framsveigju í höggstöðu („impact“), en það getur verið bogið á öðrum stöðum eftir hvernig myndbandið er tekið. Oft túlka kylfingar þetta sem merki um að þeir þurfi stífara skaft. Í raunveruleikanum er skaftið hins vegar ekki bogið eins og myndbandið sýnir. Þetta er blekking sem kallast því þjála nafni „rolling shutter effect“ á enskunni.

Hvað veldur þessari bjögun?
Flestar upptökuvélar virka þannig að þær skanna myndina inn. Oftast byrja þær uppi og vinna sig niður, en það er misjafnt eftir vélum og auðvitað eftir hvernig þeim er snúið. Vegna þess að öll myndin er ekki tekin í einu, heldur er henni „safnað saman“ yfir nokkurra mikrósekúndna tímabil, þá getur orðið mikil bjögun á öllu sem er á mikilli hreyfingu á myndbandinu.

Þyrlu- og viftuspaðar geta algjörlega virst aflagast, dekk á bíl á hreyfingu geta litið út fyrir að vera ekki lengur hringlaga og annað gott dæmi er þegar golfkylfu er sveiflað. Öll kylfan getur náð miklum hraða í niðursveiflunni og í höggstöðu liggur hún nokkuð lóðrétt niður. Ef upptakan var skönnuð lóðrétt og byrjaði uppi, þá hefur kylfuhausinn og skaftið færst örlítið meira fram með hverri línu sem er skannað. Það veldur því að skaftið virðist bogna mikið fram og að hausinn sé mun meira á undan skaftinu en í raun og veru. Það getur verið gaman að prófa að snúa t.d. snjallsímunum lóðrétt og svo lárétt við upptöku og sjá hvernig skaftið virðist þá misbogið á mismunandi stöðum í sveiflunni.

“Global shutter”
Það þarf sérstakar háhraðamyndbandstökuvélar til að losna við bjögun á hlutum á hraðri hreyfingu. Þær hafa „global shutter“, sem skannar ekki myndina, heldur tekur hana alla í einu. Á meðan snjallsímarnir eða spjaldtölvurnar hafa ekki slíkar myndavélar, þá er óþarfi að hrökkva í kút þó að skaftið virðist hegða sér eins og soðin núðla.