Skip to main content
All Posts By

a8

Sannleikurinn um þróun drivera 2014

By Greinar

Árlega koma flestir stærstu golfkylfuframleiðendur með fjölda af nýjum driverum. Sumir með allt að níu nýjar týpur á einu ári, en einhverjir þó ekki með nýjar týpur nema á nokkurra ára fresti. Með hverri uppfærslu lofa öll þessi fyrirtæki að með nýju kylfunum muni kylfingar slá beinna, stöðugar og aðallega lengra. Langmesta áherslan er lögð á að lofa aukinni högglengd, enda eru allir kylfingar til í að slá lengra.

Yfir hundrað mismunandi stillingar

Ástæðurnar sem gefnar eru upp af hverju kylfingar eiga eftir að slá lengra eru fjölmargar. Kylfuhausarnir eru ýmist straumlínulagaðri, með massamiðjuna(„center og gravity“) á öðrum stað sem á að hækka boltalug og minnka spuna, léttari kylfur, sjáanlegir vasar sem auka fjöðrun, þynnri og „heitari“ höggflötur, betri sköft , ný og betri efni í kylfuhausnum, yfir hundrað mismunandi stillingar, betri orkuflutningur o.s.frv.  o.s.frv. Sumir framleiðendur virðast jafnvel farnir í hringi með breytingarnar. Eitt árið gera þeir kassalagaða drivera til að ná þyngdinni aftar og á jaðarinn til að auka hverfitregðu en næst setja þeir þyngdarskrúfur í miðjan kylfuhausinn til að færa massamiðjuna nær höggfletinum til að minnka spuna. Eitt árið stækka þeir kylfuhausana í hámarksstærð en svo koma þeir með minni og svo má áfram telja.

„speed“, „hot“, „energy“, „lower spin“

Þetta er svo allt saman vel markaðsett með grípandi orðum og auglýsingum.  Gjarnan má sjá orð eins og „speed“, „hot“, „energy“, „lower spin“ . Bestu kylfingar heims tala svo um hvað þeir slá mikið lengra og beinna með nýjustu græjunum og það eru jafnvel gerð „fyrir og eftir“ auglýsingarmyndbönd sem sýna tölur úr mæligræjum og hvað þeir standa sig mikið betur með nýrri kylfum.

En þá er það spurningin, er þetta satt eða er þetta sölumennska? Eru bestu kylfingar heims að slá lengra með þessum kylfum og munt þú slá lengra með nýjum driver? Kíkjum fyrst aðeins á hvað COR er áður en við svörum þeim spurningum.

Hvað er COR?

COR er skammstöfun fyrir „coefficient of restitution“. Þetta hugtak mætti kalla endurkastsstuðul á íslensku og er oft nefnt fyrir mistúlkun „trampolínáhrif“. Þetta er mælieining á hversu mikil hreyfiorka tapast þegar tveir hlutir rekast saman. Mælingin gæti verið 0.0 ef öll hreyfiorka tapast eða 1.0 ef engin hreyfiorka tapast. Dæmi um 0.0 árekstur væri ef þú hentir tyggjói í vegg, það festist við vegginn og hreyfist ekki, þá hefur öll hreyfiorka tapast. Dæmi um COR sem er nánast 1.0, er þegar þú skýtur kúlu í billiard beint í aðra kúlu af sömu stærð og massa. Þá algjörlega stöðvast kúlan sem þú skaust í með kjuðanum, en hin kúlan fer af stað á næstum sama hraða.

Þegar kylfurhausar fóru að stækka ört frá 1991 fór málmurinn í þeim að verða þynnri og höggflöturinn fór þá að sveigjast við snertingu( „impact“). Því meira sem höggflöturinn sveigist, því minna kremst golfboltinn og þetta leiðir til hærri endurkastsstuðuls. Ástæðan er að það tapast mikið meiri orka þegar golfboltinn kremst heldur en þegar höggflöturinn svignar. Árið 2003 voru sett mörk á hversu hátt COR kylfuhauss má vera og tóku þau líka gildi á PGA mótaröðinni. Mörkin voru sett í .83 COR. Fyrst voru þessi mörk sett á kylfur með undir 15° flága, en seinna voru þau sett á allar golfkylfur. Þetta þýðir að ef golfbolta væri skotið á kyrrstæðan höggflöt á golfkylfu á 100km/klst hraða, þá mætti boltinn ekki koma til baka á meira en 83km/klst hraða.

COR getur skipt miklu máli

Til að átta sig betur á hvað COR getur skipt miklu máli er hér dæmi til að gefa viðmið. Gamlir stál eða tré driverar sem voru ekki sérstaklega hannaðir með þunnan höggflöt eru með COR í mesta lagi .78. Ef kylfingur sem slær rúmlega 200m af teig með nútímadriver með .83 COR myndi nota slíkan driver, þá myndi hann fljúga boltanum rúmlega 10m styttra en hann er vanur. Þeir sem slá lengra væru að tapa enn meiri lengd með gamla drivernum.

Muntu slá lengra með nýjum driver?

Hér fyrir ofan sést súlurit yfir meðalhögglengd með driver á PGA mótaröðinni frá 1993 til lok tímabilsins 2014. Eins og sjá má þá rýkur lengdin upp á þeim tíma sem driverhausarnir voru að stækka og COR var að aukast.  Árið 2003 voru flestir framleiðendur búnir að ná COR hámarki á miðjum höggfletinum. Meðallengdin árið 2003 var 262 metrar og núna árið 2014 var hún 264 metrar. Atvinnumennirnir á PGA mótaröðinni hafa bætt sig um 2 metra á síðustu 11 árum. Hank Kuehne á enn metið yfir heilt tímabil, sem var 293,9 metrar árið 2003. Mesta meðallengdin var árið 2011 266 metrar, 2m lengra en í dag árið 2014. Kylfuhraðinn á PGA mótaröðinni mælist 0,6mph hraðari nú í ár en frá því það var hann var fyrst mældur með radar 2007, en það þýðir aukna högglengd upp á 1,5m að öllu öðru jöfnu.

Það þarf ekki að rýna lengi í þetta súlurit til að sjá að það er ekki jafn mikil bylting í högglengd með hverri kynslóð af driverum eins og margir vilja halda fram. Það hefur þó á þessu tímabili orðið framför í fyrirgefningu á driverum,sem myndi skila sér í meiri meðallengd hjá flestum kylfingum og þá helst hjá þeim sem lakari eru. Með reglum um hámark á hverfitregðu(„MOI“) er búið að mestu leyti setja þak á það líka.

Öll mæld meðaltöl hafa vikmörk og það er eðlilegt að sjá meðaltölin fara örlítið upp og niður. Meðallengd teighögga á atvinnumótaröðum er þar engin undantekning. Það er ljóst að driverarnir hættu að mestu ef ekki öllu leiti að lengja atvinnumennina árið 2003. Atvinnumennirnir hafa mun meiri kylfuhraða heldur en flestir kylfingar og myndu þeir sjá talsvert meiri bætingar í högglengd með breyttum spuna eða COR heldur en aðrir kylfingar með minni sveifluhraða. Staðreyndin er augljóslega sú að ef þú hittir boltann á miðjan höggflötinn með driver sem var gerður árið 2003 og driver sem þú keyptir í dag og allt annað væri eins, þá væri sáralítill ef einhver munur á högglengdinni.  Tölurnar ljúga ekki og með öllum þeim framförum sem eiga að hafa átt sér stað í kylfuhausum, boltum, sköftum og líkamleguatgervi þá slá kylfingarnir á PGA mótaröðinni ekki nema 2 metrum lengra í dag en árið 2003.

Hvað þýðir þetta?

Það er óþarfi fyrir kylfinga að vera sífellt að eltast við nýjustu  „byltinguna“ í driverum, hvort sem hún er auglýst á nokkurra ára fresti eða oft á ári. Loforðin frá markaðsdeildunum eru einfaldlega ekki sannleikanum samkvæm. Það sem er mikilvægast er hvort að kylfan henti þér og þinni sveiflu. Þau atriði sem skipta mestu máli eru t.d. lengd,þyngd og jafnvægi kylfunnar, flái og afstaða höggflatarins(„face angle“), þykkt gripsins, stífleiki og þyngd skaftsins o.s.frv..Ef  eitthvað við núverandi driverinn þinn passar ekki fyrir þig og þína sveiflu, þá ertu hvorki að slá eins langt og þú getur né að spila af hámarks getu. Ef þau eru hinsvegar öll rétt, þá er sjaldan ástæða að skipta drivernum út. Til að lækka forgjöfina væri peningunum mikið betur varið í kennslu hjá góðum golfkennara heldur en í árlega áskrift af nýjustu afurð markaðsdeilda golfkylfuframleiðenda.

Ert þú bókstafatrúar?

By Greinar

Stífleiki skafts á golfkylfu hefur áhrif á alla þætti höggsins, þ.á.m. lengd, nákvæmni og ekki síst alla tilfinningu notandans fyrir kylfunni. Kylfingum líður sjaldnast vel með óhentug sköft og ná því mögulega ekki að leika af fullri getu.

Firm, FirmFlex, UniFlex

Eins og flestir kylfingar vita eru sköftin á golfkylfum misjafnlega stíf. Margir hafa vanist því að flokka stífleika þeirra eftir bókstöfum, eins og R, S, L og A og jafnvel orðum eins og Firm, FirmFlex, UniFlex o.s.frv. Þess vegna gæti komið mörgum á óvart að sjá hve mikill munur getur verið á sköftum þótt þau séu merkt með sama bókstaf. Ganga má svo langt að segja að bókstafsflokkun á stífleika skafta hafi enga þýðingu.

Ágiskanir í búðum og hjá kennurum

Val á skafti er mun flóknara en það virðist á yfirborðinu. Það snýst t.d. ekki bara um almennan stífleika, heldur ekki síður um hvernig hann dreifist um skaftið. Þetta, ásamt fleiri þáttum, er að finna í gagnagrunni sem betri kylfusmiðir búa yfir. Í honum er að finna ítarlegar staðreyndir, ekki ágiskanir, um raunverulega hegðun langflestra skafta á markaðnum.

Sveifluhraða kylfingsins

Enn fremur er ekki nóg að bera upplýsingar úr grunninum saman við sveifluhraða kylfingsins. Skoða þarf fleiri þætti, eins og hröðun, takt og líkamlegan styrk. Þetta getur góður kylfusmiður mælt og metið. Hann getur því ekki aðeins bent kylfingnum á hentugasta skaftið, heldur getur hann sýnt það og sannað með vísan í grunninn og mælingarnar. Þess eiga kylfingar að krefjast í kaupum sínum á sköftum og kylfum, en því miður hafa takmarkaðar upplýsingar oftast legið að baki kylfu- og skaftavali kylfinga. Það á ekki síður við þegar kylfur eru keyptar í golfbúðum eða hjá golfkennurum.

Myndin hér að ofan, sem er úr sérstökum gagnagrunni yfir golfsköft, sýnir stífleikagraf tveggja skafta sem bæði eru merkt R. Annað þeirra hentar líklega kylfingi sem sveiflar driver á 55-65 mílna hraða á klukkustund (mph), en hitt skaftið er líklegt til að henta kylfingi sem sveiflar næstum tvöfalt hraðar, eða á 95-105 mílna hraða. Það skýtur því skökku við að þeir noti báðir skaft merkt með sama bókstaf.

Slærðu raunverulega lengra með nýjum járnum?

By Greinar

Það er algengt að heyra í í kylfingum sem eru í skýjunum með nýju járnin sín. Ekki vegna þess að þeir spila betur með þeim, heldur vegna þess að þeir slá svo langt með þeim. Þeir slá allt að heilli kylfu lengra en með gamla settinu sínu og halda að það galdri fram betra skor. Spurningin er: Af hverju slá kylfingar oft lengra með nýjum járnum og þarf það að vera gott?

„Hverfandi fláa veikin“

Síðustu 20-30 árin hefur fláinn á járnum minnkað og sköftin hafa orðið lengri. Fyrir fáum árum var 2-járn 20°, 5-járn 32° og 9-járn 48°. Í dag er algengt að það sé ekkert 2-járn, 3-járnið er 19°-20°, 5-járnið 26° og 9-járnið 42° eða jafnvel minna. Sumir framleiðendur hafa gengið svo langt að hafa 4-járn 19° og PW 43°, sem hefði verið 2-járn og 8-járn fyrir um 30 árum. Framleiðendur hafa líka lengt sköftin á járnum sínum samhliða því að minnka fláann. Sem sagt, það sem var 8-járn fyrir nokkrum árum er 9-járn í dag. Sama kylfan, sami flái og lengd, en í stað þess að það standi 8 á botni kylfunnar þá stendur talan 9. Sem sagt, það sem var 8-járn fyrir nokkrum árum er 9-járn í dag.

Meiri högglengd selur

Þegar kylfingar prófa nýtt járnasett, þá er „demo“ kylfan oftast 6-járn. Ef högglengdin er meiri en með gamla 6-járninu eru miklar líkur á að kylfingar vilji kaupa allt settið. Eftir að eitt fyrirtæki byrjaði að minnka fláann til að plata kylfing til að halda að hann slái lengra, þá hafa öll önnur fylgt á eftir til að tapa ekki sölu af því högg með þeirra 6-járni fer „styttra“. En auðvitað slær kylfingurinn ekkert lengra, hann slær einfaldlega með annarri kylfu. Hann gæti gert það sama með því að líma „8“ undir gamla 7-járnið sitt. Egóið er bætt en skorið ekki. Það er hægt að auka högglengd með því að hækka endurkastsstuðul („COR“) með þunnum höggfleti, sem sumir framleiðendur eru farnir að gera. Það er dýrara en að einfaldlega minnka fláann og markaðsetja þá brellu vel. Aukin högglengd með miðlungs og stuttum járnum er ekki vegna þess að það er búið að breyta massamiðju eða út af nýjum sköftum. Hún er fyrst og fremst vegna þess að fláinn er minni.

Hverjir eru ókostirnir við þessa þróun?

Óstöðugt bil í lengd milli kylfa. Í járnasettum í dag er bilið í fláa á milli löngu járnanna mikið minna en á milli stuttu járnanna. Það er vegna þess að það er ekki hægt að minnka fláann jafn mikið á löngu járnunum eins og þeim stuttu, því þá myndi enginn ná höggum með löngu járnunum á loft. Sem sagt, bilið á milli 3-járns og PW er orðið miklu minna. Framleiðendur vilja augljóslega ekki selja færri kylfur og ekki láta kylfinga slá „styttra“ með demo kylfunum. Eina leiðin er því að hafa minna bil í fláa á milli löngu járnanna en mun meira á milli stuttu járnanna. Áður fyrr var stöðugt 4° bil milli allra járna. Í dag eru gjarnan 3° eða jafnvel 2° á milli löngu járnanna og svo 5° til 6° á milli stuttu járnanna. Vegna þess hve erfitt er að slá með löngum járnum og ná boltanum á loft ætti í raun að vera 5° á milli þeirra fyrir flesta kylfinga. Augljóslega verður þetta til þess að það verða óstöðug bil á milli kylfa. Bilið er orðið svo mikið á milli PW og SW út af þessari sölumennsku að það var fundin upp ný kylfa sem kallast milli-wedge eða gap-wedge. Framleiðendur gátu ekki minnkað fláann á sand-wedginum, því þá myndi enginn ná boltanum upp úr glompu. Bilið á milli PW og SW er því orðið um 10° eða jafnvel 13° hjá sumum framleiðendum sem eru farnir að hafa PW 43°.

Fáir geta slegið með löngum járnum

Í golfi er oft talað um „24/38 regluna”. Þessi regla er einfaldlega að þegar golfkylfa er með 24° fláa eða minna og er orðin 38“ löng eða meira, þá eiga flestir meðalkylfingar orðið mjög erfitt með að slá með þeim kylfum. Það þarf mjög nákvæma og góða tækni til þess að vera stöðugur með slíkum kylfum og það eru fáir sem ná því. Fyrir ekki svo mörgum árum féll 3-járnið þeim megin við 24/38 regluna að margir kylfingar gátu slegið með því. En vegna þess hvernig fyrirtæki hafa breytt kylfum sínum fellur í besta falli 5-járn réttum megin við regluna og fáir geta slegið með 3- og 4-járni. Út af þessu hefur í dag 2-járn næstum horfið. Það þyrfti það að vera um 16°-17° þegar 3-járnið er orðið 20°. Prófaðu næst að kíkja ofan í nokkra golfpoka úti á velli og taktu eftir að löngu járnin eru oft eins og ný því þau eru svo lítið notuð. Framleiðendur gera nú hálfvita/blendinga, sem er léttara að slá með en löngum járnum fyrir flesta. En þeir eru gjarnan allt of langir líka.

Kostnaður

Síðast en ekki síst þá er stór galli við þetta kostnaður. Kylfingar eru oft ómeðvitaðir um þessar breytingar á fláa, enda hvergi tekið fram í auglýsingum hvernig er búið að breyta honum. Þeir halda að þeir séu að slá lengra út af nýrri tækni og vonast eftir að bæta skorið með nýjum kylfum, en þeir gætu vitaskuld eins hafa valið járni lengra úr gamla settinu og sparað sér skildinginn.

Ekki falla fyrir brellunni

Þegar þú skoðar nýjar kylfur, athugaðu vel og vandlega fláann og lengdina á þeim. Vertu viss um hvað þú ert með í höndunum og hvað þú ert að bera saman. Best er ef þú ferð í mælingu eða kemst í góðan höggnema og berð saman flugtakshorn og lendingarhorn. Hversu mikið er aukin högglengd út af minni fláa og lægra boltaflugi eða út af öðrum þáttum eins og þynnri betur hönnuðum höggfleti? Ekki giska á það sem er hægt að mæla! Ekki heldur gera ráð fyrir að þótt þú sláir vel með 6-járni, þá eigir þú eftir að gera það með lengri járnunum í settinu líka. Varastu að pæla í hvaða járni meðspilarar slá með, nema þú vitir fláann á þeim. Mundu að það er enginn staðall á fláa á járnum og hann er mjög misjafn á milli ólíkra járna. Ef þú ætlar að eyða peningum til þess einungis að bæta egóið, þá væri betra að fara til íþróttasálfræðings en að kaupa nýtt járnasett.

Mýta #1 – Skaftið er vélin í golfkylfunni

By Greinar

Væri sennilega milljónamæringur ef ég fengi tíkall fyrir hvert skipti sem ég hef heyrt frasann að skaftið sé vélin í golfkylfunni. Sannleikurinn er að skaftið er í besta falli hægt að kalla kúplinguna í golfkylfunni. Skaftið býr ekki til orku í sveiflunni, heldur tengir það bara saman hendur kylfingsins við kylfuhausinn og gerir honum þannig kleift að flytja orku í kylfuhausinn og þaðan í golfboltann. Það myndar ekki fjaðurkraft sem spyrnir í boltann í höggaugnabliki(„impact“).

Skaft getur haft eftirfarandi áhrif

Það er alveg satt að ef skaft hentar ekki kylfingi og sveiflunni hans, þá slær hann ekki eins langt og hann getur. Hann mun missa taktinn í sveiflunni, hugsanlega tapa kylfuhraða, hitta höggin verr og fá verra boltaflug.

Skaft getur haft eftirfarandi áhrif:

  1. Það getur haft væg áhrif á fláa kylfunnar í höggaugnabliki. Um 2-3 gráður í driver hjá þeim með mikinn kylfuhraða og þá sem nota únliðabrot seint.
  2. Þyngd kylfunnar. Skaftið er mesta breytan þegar kemur að heildarþyngd golfkylfu. Misþung sköft henta mismunandi kylfingum. Rétt þyngd hjálpar að hitta sem stöðugast á höggflötinn og getur hjálpað sveifluferil líka. Þungi á skafti er því gríðarlega mikilvægur og oft vanmetinn þáttur.
  3. Tilfinninguna. Sumir kylfingar eru mjög næmir á hvernig skaftið bognar og hvar. Þeir kunna best við, og slá því best með, ákveðnum stífleika um endilangt skaftið.

Fjaðrar eins og veiðistöng

Þetta er í grófum dráttum allt sem skaft gerir. Það bognar ekki aftur í niðursveiflu, geymir orku sem losnar þegar það fjaðrar eins og veiðistöng. Þegar niðursveiflan hjá flestum byrjar bognar skaftið örlítið á þann hátt, að það er í sömu átt og að táin á kylfunni væri að færast upp í uppstillingu. Miðsóknarkraftur gerir það svo að verkjum að hjá sumum fer skaftið fer að bogna fram(má eins segja að miðjan í því bogni aftur). Skaftið hjá flestum kylfingum er svo orðið aftur beint í höggstað.

Viltu spila af hámarksgetu?

Þetta er nokkur einföldun á því hvað skaftið gerir. Það er mikilvægt að allir þættir skaftsins henta kylfing ef hann vill spila af hámarksgetu. En staðreyndin er sú að það bognar ekki aftur og fram eins og veiðistöng til að mynda kraft. Það er mýta.

Skýrsla frá Tom Wishon um stillanlega drivera

By Greinar

Tom Wishon, stofnandi Wishon Golf, hefur gríðarlega þekkingu á golfkylfum og þar á meðal á stillanlegum kylfum. Hann hannaði sjálfur fyrstu stillanlegu trén árið 1995. Það er 16 árum á undan nokkru öðru fyritæki! Hann hannaði AHT trén(„Adjustable Hosel Technology“) fyrir Golfsmith. Þau má sjá hér í mynd að neðan úr Golfsmith bækling frá 1995. Wishon hannaði ál ermi í AHT trén, þar sem gatið fyrir skaftið var ekki hornrétt og þannig var hægt að breyta legunni og/eða horninu á höggfletinum með því að snúa þessari ermi með skaftinu í.

Hugmyndafræðin bakvið hönnunina á AHT kylfunum er nákvæmlega sú sama og í þeim stillanlegu kylfum sem eru til sölu í dag. Með því að breyta horninu á skaftinu í hálsinn á hausnum, þá geturðu lítillega breytt legunni og horninu á höggfletinum. Þessi hugmyndafræði á rætur sínar að rekja alla leið aftur þegar kylfur voru gerðar úr tré. Hálsinn á þeim kylfum var mjög þykkur, allt að ein tomma. Með svo þykkan háls var hægt að bora fyrir skaftinu með mismunandi vinkil og þannig breyta legunni og horninu á höggfletinum.

Þeir sem gerðu kylfur úr tré vissu að það var ekki hægt að breyta fláa með því að breyta hvernig skaftið var í hálsinum. Það þurfti að slípa til höggflötinn til að breyta fláanum.
Mörg fyritæki í golfbransanum eru farin að bjóða upp á stillanlega drivera. Flest halda því fram að það sé hægt að stilla fláann, hornið á höggfletinum(face angle) og leguna. Það á að vera hægt að finna stillingu þannig allir þessi þættir henti öllum kylfingum.

En er þetta rétt? Er hægt að finna rétta stillingu handa hverjum og einum? Er hægt að breyta fláanum með því að snúa skaftinu í hálsinum? Virka stillingarnar hugsanlega ekki eins og er auglýst og eru skekkjurnar í framleiðslu á þessum driverum ásættanlegar? Henta hugsanlega hefðbundnir driverar sem er búið að velja fláa, legu og horn á höggfleti handa kylfingum betur?

Smelltu HÉR til að lesa ítarlega skýrslu Tom Wishon um nýjustu stillanlegu driverana.

Hvað er swingweight?

By Greinar

Swingweight eða sveifluþungi er hugtak sem margir kannast við úr golfbransanum. Oft hafa kylfingar heyrt minnst á að kylfa sé t.d. C8, D1 eða D4 í sveifluþunga. Gjarnan hafa betri kylfingar pælt eitthvað í þessum tölum en aðrir kannski ekki jafn mikið. En hvað er sveifluþungi og hvaða máli skiptir hann?

Sveifluþungi er ekki mælikvarði á heildarþyngd sem er gefin upp í grömmum eða kílógrömmum, heldur er sveifluþungi mæling á jafnvæginu fyrir ofan og neðan vogarás sem er 14“ frá gripenda kylfunnar, sem er ca. efsti þriðjungur kylfunnar. Mælingin er svo gefin upp í bókstöfum og tölum, frá A til G og hver bókstafur frá 0 til 9. Því hærri sem bókstafurinn og talan er, því meira er þunginn hausmeginn í golfkylfunni og því þyngri er tilfinningin þegar hennar er sveiflað. Í einföldu máli þá mælir sveifluþungi semsagt hversu þung kylfan virðist vera þegar henni er sveiflað – hversu mikið þunginn er í hausnum.

Tökum smá dæmi. Ef þú tekur 3 járn og setur blýteip á það til að þyngja. Það skiptir engu hvar þú setur þynginguna á kylfuna, hún mun hafa sama heildarþunga. En ímyndaðu þér ef þú sveiflar kylfunni og setur þynginguna fyrst á hausinn, færir hana svo á skaftið og svo í gripið. Tilfinningin fyrir hversu þungt það er að sveifla kylfunni verður mjög ólík og sveifluþungi mælir nákvæmlega þessa tilfinningu. Létt grip eykur sveifluþunga, en létt skaft minnkar hann. Mestu áhrifin eru í hausnum, en smávægilega aukinn þyngd í hausnum eykur sveifluþunga mikið.

Það er nauðsynlegt að mæla sveifluþunga til að allar kylfur pokans hafi sambærilega tilfinningu. Ef að þú ætlar t.d. að skipta út kylfu, að þá er gott að mæla sveifluþungan á nýju kylfunni og sjá hvort hún passi ekki við allar hinar kylfurnar.

Þó að sveifluþungi sé góð mæling, þá er hún ekki fullkomin. Það er hægt að smíða tvær kylfur með ólíkt þungum sköftum,hausum og gripum sem enda með sama sveifluþunga, en tilfinningin verður ekki sú sama. Það er því miður ekki svo einfalt að ef þú átt eina kylfu sem er t.d. D3 í sveifluþunga, að þá mun þér líka vel við allar kylfur í D3. Í dag er einnig hægt að mæla hverfitregðuna(MOI) í allri kylfunni, sem er öllu nákvæmari mæling en sveifluþungi.

Til að kylfingur geti spilað af hámarksgetu, þá þarf sveifluþunginn að passa við hans líkamlega styrk, takt og tilfinningu. Algengt er að líkamlega sterkur kylfingur með hraða sveiflu muni verða mjög viltur og eiga erfitt með að slá góð golfhögg með golfkylfu sem hefur lítinn sveifluþunga. Sambærilega mun kylfingur sem er ekki jafn líkamlega hraustur og með hægari takt ekki ná hámarks kylfuhraða og berjast við þá tilfinningu að erfiða við að sveifla kylfu með of miklum sveifluþunga. Algengt er að karlmenn séu með kylfur frá D0-D4 en konur C4-C8. Sveifluþungi getur haft mikil áhrif á hvernig kylfingur slær og hittir boltann. Algengt er að sjá kylfing missa högg til hægri með of miklum sveifluþunga en til vinstri með of léttum. Þetta er þó mjög eintaklingsbundið, því engir tveir kylfingar eru eins. Það er því algjörlega nauðsynlegt að prófa og finna út í hvaða þyngd kylfingur slær nákvæmast, lengst og best á höggflötinn. Góður kylfusmiður getur hjálpað með allt þetta.

Sannleikurinn um þróun drivera

By Greinar

Eru kylfingar að dræva lengra en nokkru sinni?

Nýlega hef ég orðið var við nokkuð af greinum sem fjalla um það að kylfingarnir á PGA mótaröðinni hafi aldrei slegið jafnt langt og þeir gera í dag. Í viðtölum hef ég svo heyrt atvinnumenn sem fá himinhá laun frá kylfufyrirtækjunum segja að þetta sé ótrúlegum framförum í kylfunum og boltunum sem þeir nota að þakka. Í auglýsingum má líka sífellt sjá talað um að kylfingar muni slá lengra með drivernum í ár en úgáfunni í fyrra. Ástæðurnar sem gefnar eru upp eru að driverarnir eru ýmist straumlínulagaðri, það er búið að breyta massamiðjunni fyrir hærra flug og minni spuna, léttari kylfur, byltingar í efnum í kylfuhausunum, sköftunum osfrv. Allt á þetta að verða til þess að að kylfingar slái ennþá lengra en áður. En er þetta rétt? Muntu slá lengra með drivernum í ár heldur með drivernum frá því í fyrra?

Hver er þróunin á PGA mótaröðinni?

Hér fyrir ofan sést súlurit yfir meðalhögglengd á PGA mótaröðinni. Eins og sjá má þá ríkur lengdin upp á þeim tíma sem driver hausarnir voru að stækka og COR-ið(„trampolín áhrifin“) var að aukast. Því hærra sem COR er, því meiri boltahraði næst ef þú hittir boltann á miðjuna og það er því gríðarlega mikilvægt atriði í hönnun á góðum tréhaus. Þeir sem eru með mikinn sveifluhraða bæta sig enn meira í lengd miðað við þá sem eru með hægari sveifluhraða með hækkun á COR. Í lok ársins 2002 setti USGA þak á COR sem var ákveðið að væri .83. Það þýðir að bolta sem er skotið á 100mph hraða á kylfuhaus, má ekki koma til baka á meira en 83mph hraða. Árið 2003 voru flestir framleiðendur búnir að ná þessu hámarki á miðjusvæðinu á höggfletinum og þeir handvelja síðan mælda drivera handa spilurunum sínum á atvinnumannamótaröðunumtil að þeir séu pottþétt á hámarkinu. Á súluritinu sést að högglengdin hefur næstum því staðnað frá því að þessu var náð. Meðallengdin árið 2003 var 286.6yardar, 289.5yardar árið 2008 og núna árið 2011 var hún 290.9yardar. Hank Kuehne á enn metið yfir heilt tímabil, sem var 321.4yard árið 2003. Það þarf svosem ekki að rýna lengi í þetta súlurit til að sjá að það er ekki jafn mikil bylting í högglengd með hverri kynslóð af driverum eins og margir vilja kannski halda fram. Þessar tölur geta reyndar verið svolítið villandi fyrir miðlungskylfinga, þar sem þeir hitta ekki jafn oft á miðjuna og atvinnumennirnir. Það hafa auðvitað orðið framfarir í fyrirgefningu á driverum,sem myndi skila sér í meiri meðallengd hjá flestum kylfingum. En staðreyndin er samt sú ef þú hittir boltann á miðjuna með driver gerður árið 2003 og síðan drivernum sem þú keyptir í dag og allt annað væri eins, þá væri sáralítill munur á lengdinni. Með öllum þeim framförum sem eiga að hafa átt sér stað í kylfum, boltum, sköftum og líkamlegu atgerfi að þá tekst þeim á PGA mótaröðinni ekki að slá nema um 3 metrum lengra í dag en árið 2003 samkvæmt tölfræðinni.

Hvað þýðir þetta?

Það er mitt álit sem kylfusmiður að það er gjarnan óþarfi fyrir kylfinga að vera sífellt að eltast við nýjustu tæknibyltinguna sem auglýst er að útvegi þeim auka 10m. Það er mjög lítið hægt að betrumbæta í driverunum í dag. Hinsvegar hafa kylfingar of oft ekki pælt í grunnatriðum eins og lengd skaftsins, fláa, þyngd og jafnvægi driversins og afstöða höggflatarins(face angle). Það eru þessi atriði sem skipta miklu máli. Ef eitthvað af þessu er ekki pottþétt hjá þér, þá ertu einfaldlega ekki að slá eins langt og þú getur og ekki að spila af hámarks getu. Ef þessi atriði eru hinsvegar rétt í drivernum þínum, þá er sjaldan ástæða að skipta honum út. Peningunum væri oft betur eytt í annað en nýjan driver eins og t.d. kennslu hjá góðum kennara.

 

Hvað er COR?

By Greinar

Margir hafa heyrt talað um COR í golfkylfum og þá oftast trékylfum. Þetta hugtak er mikið notað í auglýsingar og ekki síst áður en skammstöfunin MOI rataði á markaðsdeildirnar. En hvað er COR? „COR“ er skammstöfun fyrir „coefficient of restitution“.Þetta hugtak mætti kalla endurkastsstuðul á íslensku. Þetta er semsagt mælieining á hversu mikil orka tapast eða viðhelst þegar tveir hlutir rekast saman. Mælingin gæti verið 0.0 ef öll hreyfiorka tapast eða 1.0 ef engin hreyfiorka tapast. Dæmi um 0.0 COR væri mjúkt tyggjó að rekast á annað mjúkt tyggjó. Ef að þú hentir einu tyggjó í annað, þau myndu klessast saman og ekki hreyfast eftir áreksturinn, þá hefur öll hreyfiorka tapast. Dæmi um COR sem er nánast 1.0 er þegar þú skýtur kúlu í billiard alveg beint í aðra kúlu af sömu stærð og massa, þá algjörlega stöðvast kúlan sem þú skaust í með kjuðanum en hin kúlan fer af stað á næstum sama hraða. Næstum engin orka tapaðist í árekstrinum.
Það er ómögulegt að golfkylfa og golfkúla geta myndað fullkominn 1.0 COR árekstur. Ástæðurnar fyrir því er að höggflöturinn og kúlan eru úr algjörlega ólíkum efnum og að kylfuhausinn og golfboltinn eru misþungir. En þegar kylfurhausar fóru að stækka ört, og málmurinn í þeim varð þynnri og þynnri, þá fór höggflöturinn að sveigjast í „impact“. Því meira sem höggflöturinn sveigist, því minna kremst golfboltinn, og þetta leiðir til hærri endurkastsstuðuls. Ástæðan er að það tapast mikið meira orka þegar golfboltinn kremst heldur en þegar höggflöturinn svignar. Það eru semsagt engin „trampólín áhrif“ sem eiga sér stað, þrátt fyrir að það sé oft talað um það þannig. Með hærra COR náðu kylfingar meiri boltahraða og lengri höggum án þess að auka sveifluhraðann. Þetta má sjá vel með því að rýna í tölfræðina á PGA mótaröðinni. Högglengdin rauk upp á hverju ári þegar COR var að hækka í driverunum. En árið 2003 setti USGA þak á hversu hátt COR kylfuhaus má hafa. Mörkin voru sett í .83 COR. Þetta þýðir að ef golfbolta væri skotið á kyrrstæðan höggflöt á golfkylfu á 100km hraða, þá mætti boltinn ekki koma til baka á meira en 83km hraða. R&A byrjaði að setja mörkin í .86, en seinna lækkuðu þeir í Skotlandi stuðulinn niður í .83. Driverarnir sem voru framleiddir með .86 COR urðu því „ólöglegir“ í mótum. Meðalhögglengd hjá bestu kylfingum heims á PGA mótaröðinni og Evrópsku mótaröðinni hefur lítið breyst eftir að það voru sett mörk á COR.
Til að átta sig betur á hvað COR getur skipt miklu máli er hér dæmi til að gefa viðmið. Gamlir stál eða tré driverar sem voru ekki sérstaklega hannaðir með þunnan höggflöt eru með COR um .78COR. Ef kylfingur sem slær rúmlega 200m af teig notar slíkan driver myndi hann fljúga boltanum rúmlega 10m styttra en með .83COR driver. Þeir sem slá lengra væru að tapa enn meiri lengd með gamla drivernum.

Það er ómögulegt að golfkylfa og golfkúla geta myndað fullkominn 1.0 COR árekstur. Ástæðurnar fyrir því er að höggflöturinn og kúlan eru úr algjörlega ólíkum efnum og að kylfuhausinn og golfboltinn eru misþungir. En þegar kylfurhausar fóru að stækka ört, og málmurinn í þeim varð þynnri og þynnri, þá fór höggflöturinn að sveigjast í „impact“. Því meira sem höggflöturinn sveigist, því minna kremst golfboltinn, og þetta leiðir til hærri endurkastsstuðuls. Ástæðan er að það tapast mikið meira orka þegar golfboltinn kremst heldur en þegar höggflöturinn svignar. Það eru semsagt engin „trampólín áhrif“ sem eiga sér stað, þrátt fyrir að það sé oft talað um það þannig. Með hærra COR náðu kylfingar meiri boltahraða og lengri höggum án þess að auka sveifluhraðann. Þetta má sjá vel með því að rýna í tölfræðina á PGA mótaröðinni. Högglengdin rauk upp á hverju ári þegar COR var að hækka í driverunum. En árið 2003 setti USGA þak á hversu hátt COR kylfuhaus má hafa. Mörkin voru sett í .83 COR. Þetta þýðir að ef golfbolta væri skotið á kyrrstæðan höggflöt á golfkylfu á 100km hraða, þá mætti boltinn ekki koma til baka á meira en 83km hraða. R&A byrjaði að setja mörkin í .86, en seinna lækkuðu þeir í Skotlandi stuðulinn niður í .83. Driverarnir sem voru framleiddir með .86 COR urðu því „ólöglegir“ í mótum. Meðalhögglengd hjá bestu kylfingum heims á PGA mótaröðinni og Evrópsku mótaröðinni hefur lítið breyst eftir að það voru sett mörk á COR.

Til að átta sig betur á hvað COR getur skipt miklu máli er hér dæmi til að gefa viðmið. Gamlir stál eða tré driverar sem voru ekki sérstaklega hannaðir með þunnan höggflöt eru með COR um .78COR. Ef kylfingur sem slær rúmlega 200m af teig notar slíkan driver myndi hann fljúga boltanum rúmlega 10m styttra en með .83COR driver. Þeir sem slá lengra væru að tapa enn meiri lengd með gamla drivernum.

Vel hannaðir driverar í dag hafa náð því að hafa hátt COR um stærra svæði á höggfletinum með því að hafa málminn í honum misþykkan. Helstu framfararnir frá því að COR var hámarkað 2003 eru því að slæmu höggin fljúga lengra og beinna en áður. Samt sem áður erhámarks COR svæðið á höggfletinum ekki ýkja stórt. Það er því gríðarlega mikilvægt að vera með rétt smíðaðan driver til að tryggja að þú hittir sem oftast á miðjan höggflötinn. Eins gagnlegt og hátt COR er, þá er það mjög lítill þáttur í að slá sem lengst miðað við að hafa kylfuna rétt smíðaða.
Þess má geta að Tom Wishon hefur langtum meiri reynslu en nokkur annar framleiðandi af því að hanna og prófa höggfleti fyrir hærra COR.

1999 – Fystur til að gera drivera með misþykka höggfleti fyrir mismunandi sveifluhraða.
2000 – Fyrstur til að gera „ólöglega“ mikið COR í stál driver árið.
2004 – Fyrstur til að gera brautartré með hámarks COR.
2004 – 770CFE járnin. Fyrstu járnin til að vera hönnuð með mjög þunnan höggflöt fyrir hærra COR og unnu Golf Tips Magazine verðlaun fyrir að vera besta tæknileg hugmyndin það árið. Í dag hefur hann þróað þau í 870TI járnin sem hafa hármarks .83COR.
2007 – Fyrstur að ná hámarks COR í minni minni brautartrjám með littlum höggflöt.
2008 – Fyrstur til að gera hálfvita með hámarks COR.

Í dag eru Wishon driverar með stærra svæði á höggfletinum með hármarks COR en nokkur annar framleiðandi.

 

Hvað er MOI?

By Greinar

Oft er talað um MOI í golfkylfuheiminum og það er gjarnan vinsælt orð í auglýsingum fyrir drivera, járn og jafnvel púttera. Vandamálið er að fáir kylfingar vita hvað MOI er og er jafnvel nokk sama, en skilningur á því getur hjápað þér að velja golkylfur sem henta þér.

MOI stendur fyrir „Moment of inertia“ eða hverfitregða á íslensku. Hverfitregða er mæling á tregðu hlutar í hringhreyfingu, þ.e. hversu erfitt er að koma hlut á hreyfingu um ákveðin snúningsás. Því hærri sem hverfitregða hluts er, því erfiðara er að koma honum á snúningshreyfingu og því lægri sem hverfitregðan er því auðveldara er það. Í golfi er oftast verið að tala um mótstöðu kylfuhaussins við snúning þegar boltinn er sleginn á tána eða hælinn. Það getur verið erfitt að skilja þessa eðlisfræði, þannig við skilum taka nokkur dæmi um hverfitregðu sem ættu að útskýra hana betur.

Gott dæmi um hverfitregðu er þegar keppandi á listskautum snýr sér í hringi. Þegar hann byrjar að snúa sér í hringi eru hendurnar útréttar og langt frá líkamanum og þannig er hverfitregðan há og því snýst hann hægt. Þegar hann setur hendurnar nær líkamanum eykst hraðinn því að hverfitregðan er minni.

Annað dæmi eru lóðin á myndinni hér til hliðar. Þau eru jafn þung en með mjög mismunandi hverfitregðu. Ímyndaðu þér að þú haldir um lóðin í miðjunni og reynir að snúa þeim. Lóðinu með þyngdinni á endunum væri mun erfiðara að snúa vegna hærri hverftregðu. Efra lóðinu mætti líkja við pútter með þyngdinni í hælnum og tánni en neðra lóðið við gamaldags „blade“ pútter með þyngdinni meira í miðjunni

Þegar er talað um hverfitregðu í golfkylfu er yfirleitt verið að tala um um tregðu kylfuhaussins til að snúast lárétt um massamiðju sína. Semsagt hversu mikið snýst hann þegar þú slærð högg á annan stað en miðjan höggflötinn. Þetta er einn af þeim þáttum sem ákvarða hversu mikið kylfuhaus „fyrirgefur“ og þetta er hverfitregðan sem hefur verið takmörkuð af reglum golfsins. Því stærri sem hausinn á kylfunni er og því meira sem þyngdin er sett í jaðarinn á kylfuhausnum, því hærri verður þessi hverfitregða. Þetta gerir það að verkum að hausinn snýst minna ef högg eru ekki slegin á miðju höggflatarins. Ef þú slærð drive, pútt eða járnahögg ekki á miðjan höggflötinn þá mun kylfuhausinn snúast. Ef þú hittir höggið á tána, þá snýst hausinn um massamiðju sína og opnast og ef þú hittir höggið á hælinn þá snýst hausinn um massamiðju sína og lokast. Því minni orka sem tapast við að snúa hausnum, því lengra og beinna verður höggið.

Við getum tekið tvo kylfuhausa sem dæmi um mismunandi hverfitregðu. Annar væri „blade“ járnahaus þar sem þar sem mikill hluti af massa kylfunnar er beint í miðjunni. Önnur tegund af haus eru meira fyrirgefandi járn þar sem þyngdinni er dreift í hælinn og tána og haft holrými í miðjunni. Það er mjög mikill munur á hverfitregðunni á þessum kylfum. „Blade“ kylfan hefur mun minni hverfitregðu, sem gerir það að verkum að kylfuhausinn snýst meira ef högg er slegið á tána eða hælinn. Högg sem væri ekki slegið á miðjuna yrði lengra, beinna og með betri tilfinningu í kylfuhausnum með hærri hverfitregðu. Annað gott dæmi væri gamaldags lítill driver haus úr tré væri með lága hverfitregðu, en stór titanium driverhaus með meginmassann í jaðrinum væri með miklu meiri hverfitregð.

Hverfitregða skiptir líka miklu máli í pútterum. Það þarf mikla nákvæmni í stefnu og lengd til að pútta vel. Því lengra sem púttið er og því lakari sem kylfingurinn er, því meiri líkur að púttið komi ekki af miðjum höggfletinum. Bestu kylfingar heims hitta flest pútt mjög nálægt miðjunni á höggfletinum og græða því ekki eins mikið á að nota púttera með mikilli hverfitregðu og aðrir. Hinsvegar þegar kylfingar er með ekki nema 1 í forgjöf að þá getur munað um tæpum centimeter hvar þeir hitta púttin á höggflötinn í 6m pútti. Kylfingar með 18 í forgjöf hitta pútt af 6m fjarlægð að meðaltali á 4cm svæði á kylfufletinum. Kylfingar með hærri forgjöf eru með enn lakari árangur. Því hægari sem grínin eru og því lengri sem púttin eru, því sjaldnar hitta kylfingar púttin á miðjuna.

Rannsóknir sem hafa verið gerðar með pútt róbota sýna að ef pútt er 4,5m langt, þá fer það framhjá ef púttið er hitt meira en 0.6cm frá miðjunni með pútter sem hefur lága hverfitregðu. Ef það er hinsvegar pútter með mjög háa hverfitregðu að þá má hitta púttið á 5cm svæði á höggfletinum og það dettur samt. Það getur því verið mikið hjálp í því fyrir marga kylfinga að velja meira „fyrirgefandi“ pútter. Pútterar sem hafa hærri hverfitregðu eru yfirleitt með þyngdina í hælnum og tánni eða mjög aftarlega frá höggfletinum, eru stærri og oft gerðir úr fleiri en einni málmtegund. Þetta er þó ekki algilt, það eru til stórir pútterar úr mörgum málmum með furðulegt útlit sem hafa lága hverfitregðu. Það er því nauðsynlegt að fá góða ráðgjöf áður en pútter eða aðrar kylfur eru keyptar.

 

 

Mikilvægi þess að hafa rétta legu

By Greinar

Einn af þeim mörgu þáttum sem e r mikilvægt að henti þér í golfkylfu er legan.Hún er skilgreind sem hornið sem myndast á milli miðju sólans og skaftsins. Ímyndaðu þér að kylfan sitji á miðjum sólanum í uppstillingu og það liggi bein lína aftur frá hæl kylfunnar með jörðinni. Hornið sem þessi lína mynda r við skaftið er legan. Týpísk lega á járnum er frá c.a. 59 gráðum upp í 64 gráður, þar sem stuttu járnin eru uppréttari en löngu járnin flatari.

Legan er rétt fyrir kylfing þegar sólinn á kylfunni er samsíða jörðinni í „impact“ (ath. að hann getur verið allavega í uppstillingu). Legan hefur mikil áhrif á stefnu höggsins og ef hún er ekki rétt fyrir kylfinginn, þá mun honum reynast erfitt að slá beint. Ef legan er of flöt, þá hallar táin á kylfunni niður og höggflöturinn miðar til hægri („slice“ megin) og ef legan er of upprétt þá hallar hællinn niður og höggflöturinn miðar þá til vinstri („húkk“ megin). Þetta sést á myndinni hér að neðan.

Því meiri sem fláinn er á kylfunni því meiri verður skekkjan ef legan er röng. Það er því mjög mikilvægt að legan sé rétt á öllum járnum og sérstaklega á fleygjárnum. Hún skiptir hinsvegar mun minna máli í trékylfum, vegna þess hvað þær hafa lítinn fláa. Önnur ástæða að það er mikilvægt að legan sé rétt er að þegar sólinn er ekki samsíða jörðinni í „impact“ þýðir það að táin eða hællinn hallar upp í loftið og þannig er erfiðara að slá gott högg einfaldlega vegna þess að hluti kylfunnar er staddur of hátt frá jörðu. Það eru því meiri líkur á því að slá t.d. þunnt högg („skalla“) með rangri legu.

Margir kylfingar kaupa járnin og fleygjárnin sín út í búð af rekkanum og hafa ekkert pælt í legunni á þeim. Þar sem engir tveir kylfingar eru eins, er nauðsynlegt að allir séu mældir fyrir legu. Til að finna út hvaða legu þú þarft, þá þarf að mæla hana í slætti. Mæling sem er ekki gerð í slætti, þ.e. hversu há(r) þú ert og með hversu langar hendur, dugar engan veginn til að sjá hvaða lega er rétt fyrir þig. Tveir kylfingar sem eru eins vaxnir geta haft gjörólíka stöðu á kylfunni í „impact“ og þurfa því ólíkar legur. Það eru því miður miklar líkur á að legan henti þér ekki ef þú hefur ekki látið mæla þig og þín járn og lagfæra þau handa þér. Góður kylfusmiður getur mælt þig og fundið hvaða legu þú þarft og ef þess þarf, þá getur hann yfirleitt beygt járnin og fleygjárnin þín í rétta legu handa þér. Oft þurfa hávaxnir kylfingingar uppréttari legu en lágvaxnari kylfingar flatari legu. Ef þú hefur látið mæla þig einu sinni en ætlar að fá þér nýjar kylfur, athugaðu þá að framleiðendur hafa mismunandi „standard“ legu, lengd og þyngd. Það gæti því ekki hentað að halda sig við „standard“ þó þú mældist þannig fyrir eitt sett.

Lega og flái geta bognað með miklum slætti. Þetta gerist sérstaklega hjá þeim sem slá fast og bratt á boltann og enn frekar ef það er af hörðum mottum en ekki af grasi. Kylfur sem eru pressaðar („forged“) úr mjúku stáli bogna MIKLU frekar en kylfur sem eru steyptar („cast“) úr harðara stáli. Ef eitthvað af þessum atriðum á við þig eða þínar kylfur, láttu þá fara yfir fláann og leguna á járnunum og fleygjárnunum þínum reglulega.