Skip to main content

“Rolling shutter effect”
Nú til dags er algeng sjón að sjá kylfinga skoða sveifluna sína á myndbandi. Oftast er þá notast við snjallsíma eða spjaldtölvu til upptöku. Mörgum hrekkur við þegar þeir skoða myndbandið og sjá að skaftið virðist bogna mikið í sveiflunni. Algengt er að það myndi mikla framsveigju í höggstöðu („impact“), en það getur verið bogið á öðrum stöðum eftir hvernig myndbandið er tekið. Oft túlka kylfingar þetta sem merki um að þeir þurfi stífara skaft. Í raunveruleikanum er skaftið hins vegar ekki bogið eins og myndbandið sýnir. Þetta er blekking sem kallast því þjála nafni „rolling shutter effect“ á enskunni.

Hvað veldur þessari bjögun?
Flestar upptökuvélar virka þannig að þær skanna myndina inn. Oftast byrja þær uppi og vinna sig niður, en það er misjafnt eftir vélum og auðvitað eftir hvernig þeim er snúið. Vegna þess að öll myndin er ekki tekin í einu, heldur er henni „safnað saman“ yfir nokkurra mikrósekúndna tímabil, þá getur orðið mikil bjögun á öllu sem er á mikilli hreyfingu á myndbandinu.

Þyrlu- og viftuspaðar geta algjörlega virst aflagast, dekk á bíl á hreyfingu geta litið út fyrir að vera ekki lengur hringlaga og annað gott dæmi er þegar golfkylfu er sveiflað. Öll kylfan getur náð miklum hraða í niðursveiflunni og í höggstöðu liggur hún nokkuð lóðrétt niður. Ef upptakan var skönnuð lóðrétt og byrjaði uppi, þá hefur kylfuhausinn og skaftið færst örlítið meira fram með hverri línu sem er skannað. Það veldur því að skaftið virðist bogna mikið fram og að hausinn sé mun meira á undan skaftinu en í raun og veru. Það getur verið gaman að prófa að snúa t.d. snjallsímunum lóðrétt og svo lárétt við upptöku og sjá hvernig skaftið virðist þá misbogið á mismunandi stöðum í sveiflunni.

“Global shutter”
Það þarf sérstakar háhraðamyndbandstökuvélar til að losna við bjögun á hlutum á hraðri hreyfingu. Þær hafa „global shutter“, sem skannar ekki myndina, heldur tekur hana alla í einu. Á meðan snjallsímarnir eða spjaldtölvurnar hafa ekki slíkar myndavélar, þá er óþarfi að hrökkva í kút þó að skaftið virðist hegða sér eins og soðin núðla.