Eru kylfuframleiðendur að plata þig?

Eftir desember 17, 2011Greinar

Ertu í raun að slá lengra með nýjum járnum?

Oft heyri ég í kylfingum sem eru í skýjunum með nýju járnin sín. Ekki vegna þess að þeir spila betur með þeim, heldur vegna þess að þeir slá svo langt með þeim. Þeir slá allt að heilli kylfu lengra heldur en með gamla settinu sínu og halda að það verði galdurinn að betra skori. En spurningin er afhverju slá kylfingar oft lengra með nýjum járnum og þarf það að vera gott?

 „Hverfandi fláa veikin“

Síðustu 20-30 árin hefur fláinn á járnum minnkað. Fyrir ekki all mörgum árum var 2-járn 20 gráður, 5-járn 32 gráður og 9-járn 48 gráður. Í dag er yfirleitt ekkert 2-járn, 3-járnið er 20 gráður, 5-járnið 26 gráður og 9 járnið 42 gráður eða jafnvel minna. Sumir framleiðendur hafa gengið svo langt að hafa PW 43 gráður sem kallaðist 8 járn fyrir 30 árum eða svo.

Afhverju hefur þetta þróast svona?

Það er einungis ein ástæða fyrir þessari þróun og hún er að það er auðveldara að selja golfkylfur sem slá „lengra“. Þegar kylfingur prófar nýtt járnasett (eða „demo“ kylfu sem er gjarnan 6-járn) og hann slær lengra með því en gamla, þá eru miklar líkur á að hann vilji kaupa nýja settið. Eftir að eitt fyrirtæki byrjaði að minnka fláann til að plata kylfingin í að halda að hann sé að slá lengra, þá hafa öll önnur þurft að fylgja eftir til að tapa ekki sölu af því „5 járnið frá þeim slær styttra en frá öðru merki“. En auðvitað er kylfingurinn ekkert að slá lengra, hann er einfaldlega að slá með annari kylfu. Hann gæti gert það sama með því að líma „8“ undir gamla 7-járnið sitt.

Hvað er slæmt við þessa þróun?

Ókosturinn við þetta er að það er minna bil í flága á milli lágu járnanna og háu, vegna þess að það er ekki hægt að minnka fláann jafn mikið á löngu járnunum eins og þeim stuttu, því enginn myndi þá ná löngu járnunum á loft. Semsagt bilið á milli 3 járns og PW er orðið miklu minna. Framleiðendur vilja augljóslega ekki selja færri kylfur og eina leiðin til að halda jafn mörgum kylfum í settinu er þá að hafa minna bil á milli kylfanna, en mun meira á milli stuttu járnanna. Áður fyrr var stöðugt 4 gráðu bil milli allra járna. Nú í dag eru gjarnan 3 eða jafnvel 2 gráður á milli löngu járnanna og svo 5 til 6 á milli stuttu járnanna. T.d. var bilið orðið svo mikið á milli PW og SW út af þessari sölumennsku að það var fundin upp ný kylfa sem kallast milliwedge eða gapwedge. Framleiðendur gátu ekki styrkt fláann á sandwedginum því þá myndi enginn ná boltanum úr glompunum, sem varð til þess að bilið á milli PW og SW var orðið um 10 gráður. Í dag eru sumir framleiðendur orðnir það grófir að PW er orðinn 43 gráður, sem þýðir að GW og SW þurfa þá að spanna 13 gráður. Augljóslega verður þetta til þess að það verða óþægilega óstöðug bil milli kylfa.

Í dag hefur 2 járn eiginlega algjörlega horfið. Það þyrfti það að vera um 16-17 gráður þegar 3 járnið er orðið 20, og það eru mjög fáir kylfingar nógu góðir til að geta slegið járn með svo littlum fláa. Það eru jafnvel mjög fáir sem geta slegið vel með 20 gráðu 3-járni og þess vegna eru margir framleiðendur í dag farnir að byrja settið á 4 járni en enda á milliwedge. Prófaðu næst að kíkja ofan í nokkra golfpoka úti á velli og taktu eftir að löngu járnin eru oft eins og ný því þau eru svo lítið notuð. Löngu járnin eru svo orðinn enn sjaldgæfari eftir að framleiðendur fóru að gera „hálfvita“, sem eru mun léttari að slá með fyrir flesta kylfinga.

Síðast en ekki síst að þá er stór galli við þetta kostnaður. Flestir kylfingar eru ómeðvitaðir um þessar breytingar og láta því oft plata sig í að kaupa nýjustu kylfurnar því þeir slá lengra með þeim, sem þeir eru í raun ekkert að gera. Það er nauðsynlegt að vita fláann á járnunum en ekki bara númer hvað hún er til að bera saman lengdir. Best væri auðvitað ef kylfingar gætu skilið egóið eftir heima hjá sér og ekki láta lengdina eina saman stjórna því hvaða járn þeir kaupa.